Haukar unnu stóran sigur á Keflavík í Dominos deild kvenna í kvöld. Sigur Hauka þýðir að Keflavík er nú tveimur sigurleikjum frá þeim í toppsætinu.

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Það var ljóst strax í upphafi að um mikilvægan leik var að ræða. Spennan var mikil og liðin greinilega ákveðin að láta finna fyrir sér. Brittany Dinkins bar uppi sóknarleik Keflavíkur á meðan stigaskorið dreifðist mun betur hjá Haukum í upphafi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-19 fyrir heimakonum í Haukum. 

 

Haukar byrjuðu annan leikhluta á að setja fyrstu sjö stigin og koma sér í fína forystu. Þá tók Sverrir Þór leikhlé og messaði hressilega yifr sínu liði. Það kveikti ekki í liðinu sem gekk ákaflega illa að setja stig á töfluna gegn sterkri vörn Hauka. Keflavík reyndi að skipta í framliggjandi 2-3 svæðisvörn en það dugði lítið til að stöðva Hauka sem hittu vel. Haukar fóru svo með 43-34 forystu inni seinni hálfleikinn. 

 

Heimakonur héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta. Sóknarleikur liðsins með Helenu Sverrisdóttur í broddi fylkingar var mjög sterkur og vörnin á móti sterk. Keflavík gekk illa á báðum endum og mótbyrin virtist fara óskaplega í skapið á liðinu. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 70-50 fyrir Haukum sem virtust vera að ná að sigla öruggum sigri heim. 

 

Þar með má segja að leik hafi verið lokið. Liðin notuðu bekkina vel í lokafjórðungnum og lítið var skorað. Keflavík tók sitt fyrsta sóknarfrákast þegar tvær mínútur voru eftir en lokastaðan var 81-63 fyrir Haukum.

 

Hetjan:

 

Tvíeykið Helena Sverrisdóttir og Whitney Frazier voru algjörlega magnaðar í dag. Þær voru með sitthvor 42 framlagsstig í leiknum. Helena endaði með 27 stig, 16 fráköst og sjö stoðsendingar en Fraizer var með 25 stig, 17 fráköst, sjö stoðsendingar og þrjá tapaða bolta. 

 

Kjarninn:

 

Haukar endurheimtu toppsætið með sigri í dag, liðið er jafnt Val að stigum í tveimur efstu sætum deildarinnar þegar 20 umferðum er lokið. Hafnfirðingar eru klárlega að ná betri takti og jafnvægi í sinn leik eftir því sem líður og ljóst að liðið er á réttri braut. Vörn liðsins í dag var mjög sterk og tókst að afvopna Keflavík ítrekað. Lítið er eftir af deildarkeppninni og því geta hafnfirðingar verið ansi jákvæðir og bjartsýnir fyrir því sem koma skal. 

 

Það var eitthvað „off“ við Keflvíkur liðið í dag. Áræðinin og baráttan sem hefur einkennt liðið frá síðasta tímabili var ekki til staðar meiri hluta leiksins og var liðið fljótt að pirra sig á mótlætinu. Landsleikjahléið virðist hafa farið eitthvað öfugt ofan í liðið sem er nú fjórum stigum á eftir toppnum. Tap kvöldsins er samt ekkert tilefni til örvæntingar en ljóst að liðið þarf aðeins að finna einkenni sitt á ný. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Ólafur Þór)

 

Viðtöl eftir leik: