Stjarnan tók í kvöld á móti Haukum í 22. umferð Domino‘s deildar kvenna. Fyrir leikinn voru heimakonur í fjórða sæti með 22 stig, en Haukar á toppnum ásamt Val með 30 stig. Stjörnukonur eru í hörkubaráttu um sæti í úrslitakeppninni, en einungis munaði fjórum stigum á fjórða og sjötta sæti fyrir leiki kvöldsins. Gestirnir úr Hafnarfirði höfðu talsverða yfirburði í fyrri hálfleik og komust á tímabili 15 stigum yfir í öðrum leikhluta.

 

Stjörnukonum gekk illa að eiga við þær Whitney Frazier og Helenu Sverrisdóttur undir körfunni og á tímabili virtust gestirnir geta skorað að vild. Staðan í hálfleik var 40-30 gestunum í vil, og voru Haukar að spila vel á báðum endum vallarins. Stjörnukonur mættu hins vegar ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og unnu sig betur inn  í leikinn. Eftir flottan þriðja leikhluta hjá Stjörnunni var forysta Hauka komin niður í þrjú stig, 52-55. Þá náðu Haukar hins vegar að setja í annan gír og sigla sigrinum heim, og þó Stjarnan hafi lokað leiknum með 11-0 áhlaupi þá var það um seinan. Lokatölur 72-74, gestunum í vil.

 

Lykillinn

Líkt og áður sagði settu Haukakonur í annan gír þegar í fjórða leikhlutann var komið og voru 13 stigum yfir þegar um þrjár mínútur voru eftir, 61-74. Úrslit leiksins gefa eilítið ranga mynd af leiknum, því þó að Stjarnan hafi skorað 11 síðustu stig leiksins þá komu sjö síðustu stigin á síðustu hálfu mínútu leiksins, og þar af voru síðustu þrjú stigin úr þremur vítaskotum frá Danielle Rodriguez þegar leiktíminn var runninn út. Stjörnukonur fá þó hrós fyrir hetjulega baráttu allt fram á síðustu sekúndu.

 

Hetjan

Whitney Frazier var illviðráðanleg undir körfunni fyrir Haukakonur og skilaði tröllatvennu, 27 stigum og 18 fráköstum.

 

Framhaldið

Haukar eru nú einar á toppi deildarinnar með 32 stig, en Stjörnukonur eru enn í því fjórða með 22 stig. Framundan er hörkubarátta um sæti í úrslitakeppni deildarinnar því aðeins munar fjórum stigum á fjórða og sjöunda sæti deildarinnar. Næst leika Stjörnukonur gegn Breiðablik 7. mars en Haukar leika sama dag gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)