Í kvöld lýkur 16. umferð í Domino´s-deild karla með tveimur leikjum. Stórleikur kvöldsins er viðureign Hauka og Tindastóls en sigurliðið blandar sér í toppinn með KR og ÍR sem bæði hafa 24 stig en Haukar og Tindastóll eru bæði með 22 stig í 3.-4. sæti deildarinnar. Þá er viðureign Þórs úr Þorlákshöfn og Keflavíkur ekki síður áhugaverð en sá leikur hefst kl. 19:15 í Icelandic Glacial Höllinni en Haukar-Tindastóll byrjar 20:00 í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði.

Tindastóll vann fyrri deildarleikinn gegn Haukum 91-78 og stendur því ágætlega gagnvart innbyrðisviðureign liðanna en Haukar þurfa 14 stiga sigur í kvöld til að kýla Stólana niðurfyrirsig bæði í stigum og innbyrðisstöðu.

Í Þorlákshöfn í kvöld eru stigin ekki síður af dýrari gerðinni, Keflavík með 14 stig í 8. sæti en Þór með 12 stig í 9. sæti. Keflavík vann fyrri viðureign liðanna 98-79 svo Þór þarf fátt annað en stórleik til að jafna Keflavík að stigum í kvöld og gera atlögu að innbyrðis viðureigninni.

Þá er einn leikur í 1. deild karla þegar ÍA tekur á móti Hamri kl. 19:15 á Vesturgötunni á Akranesi og kl. 20:00 mætast Ármann og Fjölnir í 1. deild kvenna.