Það var enginn upphitunarleikur í Schenker-höll Hauka í kvöld! Lokaleikur 19. umferðar, Haukar gegn KR, og ALLIR að fylgjast með. Haukar unnu 82-66 í Vesturbænum svo fullnaðarsigur KR-inga yrði 16+ sigur. Með slíkum sigri kæmu KR-ingar sér á toppinn en þeir eru með 26 stig, tveimur stigum á eftir Haukum, Tindastóli og ÍR. Sigur Hauka myndi aftur á móti færa þá talsvert nær deildarmeistaratitli, en um þetta þorir enginn að spá nema kúlan…

 

Spádómskúlan: Kúlan titrar og skelfur eins og Askur Yggdrasils í upphafi ragnaraka. Hún finnur til ábyrgðar rétt eins og liðsmenn beggja liða. Svo birtast í kúlunni stutt myndbrot. Við sjáum krakka vega salt, jörðina snúast og hringrás daganna og árstíðanna birtast á ógnarhraða. Þetta þýðir að sveiflur lífsins munu halda áfram enda ekkert eðlilegra. KR mun því hafa betur á vegasalti lífsins að þessu sinni og sigra 91-79.

 

Þáttaskil

Leikurinn fór býsna rólega af stað og spennan kannski ekki eins áþreifanleg og búast mátti við. Varnir beggja liða voru þéttar og lítið skorað í upphafi. Það rættist þó úr því, Jones var heitur og setti heil 12 stig í fyrsta leikhluta. Pollard skilaði 6 fyrir KR og þar var nokkurn veginn munurinn á liðunum eftir einn, 25-20

 

Heimamenn settu fyrstu 7 stig annars leikhluta þar sem Kári Jóns sýndi klærnar. Jones hélt svo uppteknum hætti og var algerlega óstöðvandi og var kominn með 22 stig í hálfleik! Vörn Hauka var jafnframt afar einbeitt og hjálparvörnin eins og best verður á kosið. Stemmningin hjá KR-ingum var agalega fórnarlambsleg, með öðrum orðum virkaði liðið eins og litla liðið inn á vellinum. Haukar leiddu með umtalsverðu forskoti 44-30 í hálfleik. 

 

Kristján Leifur byrjaði seinni hálfleikinn á því að fá tvær villur á 30 sekúndum og þar með útilokun frá frekari þátttöku. Hann hafði gætt Pollard vel á póstinum. KR-ingar gerðu sig liklega til að komast inn í leikinn og í stöðunni 48-40 þegar um 7 mínútur voru eftir af þriðja tók Ívar leikhlé. Það virtist stöðva áhlaup KR ef áhlaup skyldi kalla og liðin skiptust á allnokkrum körfum og munurinn stóð í um 10 stigum. Heimamenn áttu svo frábærar síðustu 3 mínútur í leikhlutanum þar sem Kári og Jones fóru gersamlega á kostum! Skyndilega var munurinn orðinn 21 stig, 71-50, en Darri lagaði aðeins stöðuna með þristi í blálokin.

 

Haukar fóru full fljótt að verja forystuna í lokaleikhlutanum. Þeir fóru að lengja í sóknunum og hægja á leiknum. Það hentar liðinu í raun ekki vel. KR-ingar nýttu sér það sæmilega en Kári og Jones settu mikilvægar körfur fyrir heimamenn. Þegar um 3 mínútur voru eftir var munurinn 10 stig, 85-75 og enn von. Jón Arnór reyndi að draga sína menn áfram og Pavel og Kristó voru farnir að hitna aðeins í þeirra baneitraða vaggi og veltu. En jafnvel KR-ingum var ofviða að vinna upp 18 stig í einum leikhluta. Þrátt fyrir fínan leikhluta KR náðu þeir ekki að hleypa almennilegri spennu í leikinn þó lokatölur bendi til annars,  91-89.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Tveggja stiga skotnýting Hauka var öllu betri en KR-inga eða 58% á móti 43%. Þó grunar undirrituðum að eitthvað ótölfræðilegt fyrirbæri hafi skorið á milli að þessu sinni!

 

Hetjan

Paul Jones spilaði nánast fullkomlega í kvöld! Hann skilaði 35 stigum í örfáum skotum og tók 8 fráköst. Ef hann verður eitthvað nálægt svona spilamennsku í úrslitakeppninni verða Haukar Íslandsmeistarar!

 

Kjarninn

Nú hafa KR-ingar tapað tveimur leikjum í röð, eitthvað sem hefur ekki gerst nema í örfá skipti á síðustu árum. Sennilega munu spekingarnir velta því fyrir sér hvort tala megi um krísu í Vesturbænum. Undirritaður bendir á að úrslitakeppnin er ekki byrjuð enn….

 

Það er sterkt hjá Haukunum að pakka Njarðvík saman á útivelli og vinna í raun nokkuð öruggan sigur á meisturum KR. Deildarmeistaratitillinn er í sjónmáli!

 

Athygliverðir punktar:

  • Mætingin var þolanleg í Schenker-höllina í kvöld. Vonandi fara Hafnfirðingar að átta sig á því að körfubolti er móðir allra íþrótta og fylla höllina í úrslitakeppninni.
  • DJ kvöldsins sló vart feilnótu, fastráðið manninn.
  • Kúlan sveiflast líka…þar liggur feillinn.

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

Viðtöl eftir leik:

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson 

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn