Gunnar Ólafsson sem leikið hefur með St. Francis háskólanum í Brooklyn hefur misst af mörgum leikjum á tímabilinu í bandaríska háskólaboltanum í vetur vegna meiðsla. 

 

Gunnar sem var í byrjunarliði skólans á síðasta tímabili hefur einungis spilað ellefu af 24 leikjum liðsins hingað til og þar af spilað meiddur stóran hluta þessara leikja. 

 

Karfan.is náði tali af Gunnari á dögunum en hann er nú kominn aftur á parketið hjá St. Francis. 

 

„Bakmeiðsli hafa verið að angra mig allt tímabilið, alveg frá byrjun og var að reyna spila i gegnum það þegar ég var stutt frá því að rífa liðband i þumlinum.“ sagði Gunnar um meiðslin og bætti við:

 

„Það hékk saman á bláþræði og því þurfti ekki aðgerð en tók samt sem áður langan tíma að gróa.“

 

Gunnar er á lokaári við St. Francis skólann. Hann byrjaði 25 af 27 leikjum sínum á síðasta tímabili og lék yfir 20 mínútur að meðaltali í leik síðustu tvö tímabil. Það var því ekki úr vegi að spyrja hann hvort það væri ekki erfitt að komast í gegnum þessi meiðsli á lokaárinu við skólann. 

 

„Það var auðvitað leiðinlegt að missa byrjunarliðssætið og missa svona mikið úr.“ sagði Gunnar hreinskilinn og bætti við: 

 

„En ég leit bara á meiðslin sem verkefni og vonandi verð ég áfram góður í sambandi við þau á lokasprettinum. Ég var alltaf ákveðinn í að komast í gegnum þetta.“

 

 

Gunnar kom til baka í síðustu viku og átti góða innkomu af bekknum og daðraði við tvöfalda tvennu. Hann endaði með 9 stig og 8 fráköst í sigri á Bryant. 

 

„Staðan er bara nokkuð góð á mér núna og það er ótrúlega góð tilfinning að spila aftur!“ sagði Gunnar og sagðist spenntur fyrir komandi átökum. 

 

„Mér lýst vel á endasprettinn. Deildin er frekar jöfn og við erum með gott lið. Svo getur allt gerst í úrslitakeppninni.“

 

Hvað tekur svo við eftir þetta skólaár hjá Gunnari? 

 

„Ekki búinn að hugsa svo langt, fókusinn núna, er að klára tímabilið hér og svo bara sjá hvað setur.“