Hamar tók á móti Breiðablik í Frystikistuni í kvöld, bæði lið að berjast fyrir heimavallarrétti í úrslitakeppni og því viðbúið að hart yrði barist. Fyrstu fimm mínútur leiksins voru jafnar og staðan jöfn (11:11) að loknum fyrstu sex mínútum leiksins.

 

Við tók hinsvegar góður sprettur Blika og á rétt rúmum tveimur mínútum var munurinn komin í tíu stig (13:23). Blikar héldu síðan þessum tíu stiga mun allt þar til annar leikhluti var hálfnaður að munurinn var komin í fjórtán stig (26:40) og útlitið ekki gott fyrir heimamenn.

 

En líkt og margur spekingurinn hefur oft tönglast á er körfubolti leikur áhlaupa og við tók góður sprettur heimamanna þannig að þegar liðinn gengu til hálfleiks var munurinn komin niður í fimm stig (44:49) og allt annar bragur á leik heimamanna. Seinni hálfleikur byrjaði nokkuð jafn og þegar fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta komust heimamenn einu stigi yfir (59:58) og flott stemming í Frystikistuni. Blikar komust þó fljótt yfir aftur og héldu í framhaldinu þetta tveggja til sex stiga forustu allt þar til fjórði leikhlut var hálfnaður að Hamar komst aftur einu stigi yfir (85:84) og hitastigið í Frystikistuni allt annað en eðlilegt fyrir þess háttar heimilistæki.

 

Aftur sigu þó Blikar framúr eða þar til ein og hálf mínúta lifði leiks að Hamar komst tveimur stigum yfir (91:89) með þriggja stiga körfu frá Larry. Halldór jafnar leikinn fyrir Blika eftir að Blikar höfðu tekið tvö sóknarfráköst í sömu sókninni og allt á suðupunkti, Hamarsmenn misnota síðan þriggja stiga skot og Blikar bruna í sóknina en henda boltanum frá sér. Þjálfari Hamars tekur þá leikhlé þegar 23 sek lifðu leiks og í framhaldinu fær Hamar boltann á sóknarhelmingi, öllum í húsinu ljóst að nú átti bara að taka eitt skot í lokinn fyrir sigrinum og líkt og venjan er í þessari stöðu fær erlendur leikmaður liðsins boltan og á að klára leikinn.

 

Larry Thomas sínir síðan hversu klókur hann er og dregur í sig varnarmenn og skilar boltanum á Smára Hrafnson sem setur niður þrist úr horninu og Hamar vinnur leikinn 94:91. Flottur leikur í kvöld hjá báðum liðum og óhætt að segja að sigur í þessum leik gat lent hvorum megin sem var. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn

 

Umfjöllun / Daði Steinn Arnarsson