Eftir tap Keflavíkur í gær fyrir botnliði Hattar fóru af stað þær sögusagnir að félagið myndi skipta Friðriki Inga Rúnarssyni, þjálfara liðsins út. Bæði var tapið sárt fyrir Keflavík sem slíkt, en þá hafði liðinu heldur ekki gengið vel síðustu vikur og t.a.m. tapað einum sjö leikjum í röð á heimavelli.

 

Samkvæmt heimildum Körfunnar verður Friðrik Ingi áfram með liðið, en samið var við hann á síðasta ári út næsta tímabil, 2018-19. Enn frekar er Friðrik sagður bæði með 100% traust stjórnar sem og leikmanna þrátt fyrir þetta misjafna gengi undanfarið, en liðið er sem stendur í 8. sæti Dominos deildarinnar.

 

Friðrik kom til starfa hjá félaginu á síðasta tímabili, þar sem hann stýrði því í undanúrslit Íslandsmótsins. Þar voru þeir slegnir út af verðandi meisturum KR, en Keflavík mætir einmitt KR í 19. umferð Dominos deildarinnar komandi föstudag kl. 20:00 í DHL Höllinni.