Karfan.is fékk Árna Þór HIlmarsson, Flúðameistara með meiru, til þess að rýna í leikina í Domino´s-deild karla í kvöld. Árni sér Þór lenda í vandræðum í teignum gegn Keflavík sem tefla nú fram tvennutilboði eins og hann kemst að orði. Að sama skapi segir Árni Skagfirðinga vera komna á skrið og nái í tvö stór stig í Hafnarfirði í kvöld.

Árni Þór Hilmarsson um viðureignir kvöldsins (Þór Þorlákshöfn-Keflavík / Haukar – Tindastóll)

Þór Þ – Keflavík
Ég verð viðurkenna að ég var nánast búinn að afskrifa Þórsara úr einhverjum úrslitakeppnispælingum og m.a.s. farinn að óttast það versta fyrir þeirra hönd. Þeir hafa hins vegar komið með alvöru frammistöðu tvo leiki í röð þar sem allir leikmenn liðsins hafa verið að spila vel. Frammistöður Emils Karels gegn Haukum og Halldórs Garðars gegn Stjörnunni hafa verið á vörum manna, enda hvoru tveggja virkilega góðar frammistöður en ég held að það verði að gefa Njarðvíkur-Ólunum tveimur mikið hrós fyrir þeirra þátt í þessum viðsnúning.
Óli Ragnar búinn að vera gjörsamlega frábær báðum megin á vellinum og hvernig hann hefur stjórnað vellinum er til fyrirmyndar á meðan Ólafur Helgi bindur vörnina gjörsamlega saman og minnir á sig sem einn af allra bestu varnarmönnum deildarinnar. Þá hefur innkoma Snorra Hrafnkels gert mikið fyrir liðið að auki hefur konungurinn staðið undir nafni og skífuþeytirinn fundið taktinn. Þá verður spennandi að sjá hvernig nýji ameríski leikmaður liðsins á eftir að reynast liðinu í þessum leik. Talandi um nýja ameríska leikmenn (tvennutilboð í Dominos!!) þá gæti sá nýji hjá Keflavík snúið dæminu við hjá þeim og Þórsar gætu lent í vandræðum inni í teig í þessum leik. Þó svo Keflavíkur-kennileytið hefur verið hraður og á köflum viltur leikur þá er mín tilfinning sú að með smá aga í sóknarleikum geti Keflavík breytt stigalausum janúar í eitthvað betra fram á vorið. Mín spá er sú að þetta verði algjör naglbítur en Þórsarar landa þessu eftir a.m.k. 1 framlengingu.

Haukar-Tindastóll
Haukarnir þurfa að koma inn í þennan leik til þess að sýna að þeir geti gert atlögu að titlinum á meðan heitasta lið deildarinnar frumsýnir nýjan amerískan leikmann. Tindastólsmenn hafa verið að leggja drög að sigri í sínum viðureginum með mjög stífum varnarleik þar sem mínútum og villum er dreift vel á milli manna. Haukarnir þurfa því að koma mun tilbúnari í þennan leik en þeir gerðu í bikarnum þar sem mölin tók á malbikinu svo um munaði. Haukarnir þurfa að ,,óhreinka“ sig meira í þessum leik ef þeir ætla sér eitthvað og geta ekki bara staðið fyrir utan bogann. Ég held að mönnum sé að verða alveg ljóst að Skagfirðingar eru komnir á skrið, ég held að þeir haldi siglingunni áfram í kvöld og nái í sigur á Ásvelli, það verður þó einhver hasar í þessum leik.