Ísland sigraði Finnland með 5 stigum, 81-76, í undankeppni heimsmeistaramótsins 2019. Íslenska liðið því komið með sinn fyrsta sigur í keppninni, en áður höfðu þeir tapað fyrir tékklandi og Búlgaríu í nóvember síðastliðnum.

 

Næst leikur liðið gegn Tékklandi kl. 16:00 á sunnudaginn í Laugardalshöllinni.

 

Fyrir leik

Nokkuð vantaði í lið Finnlands í kvöld. Umdeilanlega þeirra besti leikmaður, Lauri Markkanen, leikur í NBA deildinni og var því fjarri góðu gamni. Þá voru þeir Petteri Koponen og Sasu Salin báðir uppteknir með félagsliðum sínum, sem bæði leika í Euroleague.

 

Í íslenska liðið vantaði miðherjann Tryggva Snær Hlinason, en hann leikur einnig í Euroleague og vegna vandræða á ferðalagi hans, komst hann ekki til Íslands í tæka tíð fyrir leikinn. Þar sem að búið var að tilkynna 12 manna hóp liðsins, spilaði Ísland með aðeins 11 leikmenn á skýrslu í kvöld.

 

Gangur leiks

Ljóst var frá fyrstu mínútu að Ísland ætlaði að selja sig dýrt í dag. Ísland skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum, þar sem Martin Hermannsson fór á kostum, setti 11 stig á þessum upphafsmínútum, en fyrsti leikhlutinn endaði 20-18 Íslandi í vil.

 

Í öðrum leikhlutanum er leikurinn svo jafn nánast allan tímann, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Ísland stigi yfir, 39-38.

 

Atkvæðamestur fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Hlynur Bæringsson með 8 stig, 6 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Finnland var það Mikko Kolvisto sem dróg vagninn með 9 stigum og 2 fráköstum.

 

Finnar mættu svo mun betur stemmdir en heimamenn til seinni hálfleiksins. Taka snarpt 3-12 áhlaup og halda þeirri forystu. Þriðji leikhlutinn endar 55-63 fyrir Finnland, en sá munur hefði geta verið meiri ef ekki hefði verið fyrir tvo laglega þrista frá Pavel Ermolinski.

 

Ísland gerði svo vel í upphafi þriðja leikhlutans. Vinna niður þessa 8 stiga forystu Finnland á fyrstu 2 mínútum hlutans, 63-63. Eftir það var leikurinn aftur jafn og spennandi þangað til Ísland siglir frammúr á lokamínútunum og sigrar að lokum með 5 stigum, 81-76.

 

Kaflaskil

Undir lok leiksins setti Ísland öll réttu skotin og stoppuðu hinumegin á vellinum til þess að halda forystu í leiknum. Góður 11-3 kafli frá miðjum 4. leikhlutanum þangað til það var um mínúta eftir má kalla kaflaskil leiksins, en Ísland gerði einnig vel síðustu mínútuna að hleypa Finnlandi ekki aftur inn í leikinn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland passaði boltann vel í leik kvöldsins, töpuðu honum aðeins í átta skipti á móti tólf töpuðum boltum hjá Finnlandi.

 

Hetjan

Martin Hermannsson var stórkostlegur í kvöld. Skoraði 26 stig, tók 2 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 3 boltum á þeim 35 mínútum sem hann spilaði.

 

Myndasafn

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Viðtöl / Ólafur Þór & Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtöl: