Ísland tók á móti Tékklandi í fjórða leik undankeppni HM í Laugardalshöll. Þeir bláklæddu höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn og náðu að lokum í 76-75 sigur á Tékkum í leik sem var full spennandi í lokin. 

 

Umfjöllun, myndir og viðtöl úr leiknum má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Íslensku leikmennirnir komu létt taugatrekktir til leiks. Sóknin var stirð í upphafi og Tékkar komust í 0-5. Þá setti Ísland saman í 8-0 áhlaup þar sem vörn liðsins var í aðalhlutverki. Dómarar leiksins leyfðu leiknum lítið að fljóta þar sem það var mikið flautað og fyrir vikið var fyrsti leikhlutinn heila eilífð. Sóknarleikur Íslands var full tilviljanakenndur en Pétur Rúnar Birgisson kom inná í lok fjórðungsins og með honum kom gott boltaflæði og góðar körfur í framhaldi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 19-14 fyrir Íslandi. 

 

Annar leikhluti hófst á því að Tryggvi Snær Hlinason stimplaði sig rækilega inn. Hann tróð boltanum með þvílíkum tilþrifum, fór beint í vörn og varði bolta frá Balvin leikmanni Tékklands. Frábær vörn fyrri part annars leikhluta bjó til auðveldar körfur hinu megin og Ísland var með öll tök á leiknum. Þegar leið á annan leikhluta hertist vörn Tékka töluvert og tókst þeim þá að nálgast Ísland nokkuð. Staðan í hálfleik var 39-32 en vörn Íslands algjörlega mögnuð, að halda Tékkum í 32 stigum í hálfleik er geggjað! 

 

Rétt eins og í byrjun leiks var Ísland ekki alveg á mætt til leik í byrjun seinni hálfleiks. Tékkar náðu nokkrum körfum í röð og jöfnuðu leikinn. Martin og Tryggvi tóku þá leikinn yfir en pick og rollin þeirra voru ansi skilvirk. Staðan fyrir lokafjórðunginn 59-54 og allt útlit fyrir háspennu í lokin. 

 

Vörn Íslands mætti í ham í fjórða leikhluta. Liðið hélt Tékkum stigalausum í í fyrstu þrjár mínútur leikhlutans og komst í þrettán stiga forystu. Martin Hermannsson setti tvær þriggja stiga körfur í röð niður þegar fjórar mínútur voru eftir til að koma stöðunni í 76-62 og allt leit út fyrir að íslenskur sigur væri í húsi. Svo var aldeilis ekki, því seinni þristurinn hans Martins var síðasta karfa Íslands í leiknum. 

 

Tékkar settu í gírinn varnarlega og Ísland gat ekki keypt sér körfu síðustu fjóra mínúturnar. Tékkland setti 12-0 áhlaup í lokin og munurinn skyndilega orðin tvö stig 76-74 þegar tuttugu sekúndur eru eftir og Tékkar áttu boltann. Brotið var á Balvin sem fékk tvö víti þegar örfáar sekúndur voru eftir. Hann hitti ekki seinna vítinu og eftir mikinn daraðadans í frákastabaráttunni hafði Ísland sigur og vann því 76-75 sigur á Tékklandi. 

 

Hetjan:

 

Enn og aftur í þessari undankepni er það Martin Hermannsson sem er besti maður vallarins. Hann endaði með 26 stig, 4 fráköst og þrjár stoðsendingar. Auk þess hitti hann ótrúlega vel utan að velli í leiknum og leiddi liðið áfram. Það er nokkuð ljóst að Martin er að taka við leiðtogahlutverkinu í liðinu með miklum bravúr! Þá er vert að minnast á frammistöðu Tryggva Snæs Hlinasonar í leiknum, þessi gæji er enn að sýna ótrúlegar framfarir á leik sínum. Hann endaði með 15 stig og 8 fráköst í leiknum. Þá áttu Jón Arnór Stefánsson og Haukur Helgi virkilega mikilvægar rispur í leiknum. 

 

Kjarninn:

 

Þessi sigur gæti reynst ansi hreint mikilvægur fyrir Ísland. Liðið spyrnir sér frá botni riðilsins en neðsta sæti hans þýðir að liðið fellur niður í B-deild undankeppninnar sem gæti reynst dýrt. Varnarleikurinn hjá Íslandi var magnaður heilt yfir í dag. Liðið las allar aðgerðir Tékklands vel og þurftu tékkar að hafa ansi mikið fyrir öllum sínum stigum. Mikið af þeirra stigum komu úr erfiðum skotum eða undir körfunni frá Auda en Tryggvi og aðrir stórir leikmenn lentu í vandræðum með hann. 

 

Ísland er fyrsta liðið til að sigra Tékkland í þessari undankeppni. Tékkar enduðu i 20 sæti á Eurobasket, eru með ógnarsterkt lið og því um ansi stór úrslit að ræða fyrir okkar Íslenska lið. Það sem gerir þennan sigur enn sætari er að mótvindurinn dundi á íslenska liðinu í þessum leik. Dómarar leiksins áttu ekkert sérstakan dag, mikið var flautað og ansi ljóst að “litla Ísland” fékk ekkert gefins frá þeim röndóttu í dag. 

 

 

Körfuboltaáhugamenn fá hreinlega vatn í muninn við að fylgjast með samleik Martins og Tryggva í þessum leik. Vörn Tékka var skíthrædd við Pick og Roll kerfi þeirra tveggja sem var ítrekað til þess að Martin fékk auðvelda körfu því Tryggvi átti ekki að fá háar sendingar við körfuna. 

 

Að lokum. Logi Gunnarsson. Hvað er hægt að segja eftir svona kveðjustund. Logi hefur ákveðið að setja landsliðsskónna á hilluna eftir þennan leik og fékk magnaðan leik og kveðjur eftir leik. Það sjá allir sem fylgst hafa með umræðunni í aðdraganda leiksins að þarna er toppeintak á ferðinni sem landsliðið mun án efa sakna. Þetta var hans stund og greinilegt að liðið vildi kveðja hann með sigri. Þvílíkur endir á þvílíkum 20 ára landsliðsferli. Takk Logi. 

 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Bára Dröfn)

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Viðtöl / Davíð Eldur og Ólafur Þór

Myndir / Bára Dröfn