Karfan sagði frá því þann 8. febrúar síðastliðinn að leikmaður Tindastóls, Arnar Björnsson, væri frá vegna álagsmeiðsla í nára. Eins og oft vill verða barst Körfunni flökkusaga þess efnis að þær fregnir væru tilbúningur til þess að hylja raunverulega ástæðu þess að leikmaðurinn væri ekki að spila, sem væri sú að hann hefði fallið á lyfjaprófi eftir glæstan bikarúrslitasigur Tindastóls gegn KR í síðasta mánuði.

 

Karfan hafði samband við formann Tindastóls, Stefán Jónsson og spurði hann út í þessar þungu ásakanir og staðfesti hann að um algjöran tilbúning hafi verið að ræða. Sagði Stefán öfund aldrei til árangurs. Enn frekar bætti hann við að hann viti nánast um upprunan af þessu kjaftæði og að hann voni að þeir sem komi svona sögum í loftið líði vel.

 

Sannleikurinn í málinu er því enn sá sami. Leikmaðurinn er að eiga við álagsmeiðsl í nára sökum ofæfinga og samkvæmt læknisráði hvílir hann á meðan. Formaðurinn sagðist þó búast við Arnari aftur í búning eftir landsleikjahlé þann 1. mars næstkomandi, en þá tekur Tindastóll á móti KR í Síkinu á Sauðárkróki.