Í kvöld eru fimm leikir á dagskránni í Domino´s-deild karla en fjórir þeirra hefjast kl. 19:15 og viðureign Þórs frá Akureyri og Stjörnunnar hefst svo kl. 20:00.

Eins og gefur að skilja eru mörg rándýr stig á ferðinni í kvöld og í öllum umferðum hér eftir en bæði Valur og Þór Þorlákshöfn sem eiga enn möguleika á úrslitakeppninni munu vafalaust selja sig dýrt!

19:15 Keflavík – Hötttur
Höttur situr á botni deildarinnar með 2 stig og máttu fella sig við 66-92 ósigur gegn Keflavík í fyrri umferðinni á Egilsstöðum. Gengi Hattar á útivelli er átta tapleikir í röð en þeir eygja kannski von vitandi það að Keflavík hefur tapað síðustu fimm heimaleikjum í röð. Alls 14 stig skilja liðin að í deildinni og ef Höttur ætlar að sækja sigur í Keflavík má ansi margt ganga upp gegn Keflvíkingum sem eru í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppninni því Þór Þorlákshöfn og Valur eru að banka á dyrnar.

19:15 Grindavík-Njarðvík
Njarðvíkingar unnu fyrri deildarleik liðanna 97-75 í Ljónagryfjunni og Grindvíkingar fengu rassskell í síðustu umferð gegn KR. Heimamenn í Mustad-Höllinni mæta því væntanlega beittir til leiks í kvöld. Von er á miklum slag því með sigri geta Grindvíkingar jafnað Njarðvík að stigum en þurfa 23 stiga sigur til að ná innbyrðisviðureigninni. Að sama skapi eru Njarðvíkingar í færi á að komast ofar í töfluna og lenda heimavallarrétti í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

19:15 Valur – ÍR
Nú eru Valsmenn nánast á síðasta séns. Þeim dugir vart annað en að vinna þá leiki sem eftir eru, landa þessum 10 stigum og vonast eftir hagstæðum úrslitum annarsstaðar og þá getum við mögulega farið að ræða um sæti í úrslitakeppninni. Valur gerði góða ferð í Hertz-Hellinn með 76-90 sigri á ÍR í fyrri umferðinni en ÍR-ingar hafa tapað síðustu tveimur deildarleikjum. Bæði lið munu selja sig dýrt í kvöld enda ÍR enn í færi á deildarmeistaratitli og Valur með vilja til að loka þriggja leikja tapgöngu sinni.

19:15 Þór Þórlákshöfn – Tindastóll
Þór Þorlákshöfn þarf tvö stig í kvöld, þeim dugir fátt annað en sigur ef þeir ætla ekki að missa af úrslitakeppninni. Þór er í 9. sæti með 14 stig, 2 stigum á eftir Keflavík. Tindastóll er enn í baráttunni um deildarmeistaratitilinn eða tveimur stigum á eftir Haukum og KR á toppi deildarinnar. Nokkuð ljóst að það er von á flugeldasýningu í Icelandic Glacial Höllinni í kvöld.

20:00 Þór Akureyri – Stjarnan
Tíu stig í pottinum og tíu stig í úrslitakeppnina en það er varla ofarlega á baugi hjá Þór Akureyri um þessar mundir, barátta fyrir lífi sínu í deildinni er væntanlega allsráðandi í hugum Hjalta og lærisveina hans. Valsmenn hafa fjögurra stiga forskot á Þór Akureyri í 11. sætinu en eins og áður segir eru 10 stig í pottinum fyrir kvöldið og Stjarnan á leið í heimsókn. Garðbæingar eru með 18 stig í 6. sæti deildarinnar og munu vafalítið leggja allt í sölurnar enda ekkert úr sögunni að þeir geti nælt sér í heimaleikjarétt í úrslitakeppninni en til þess þarf ansi margt að ganga upp.
 

Staðan í Dominos-deild karla

Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Haukar 13/4 26
2. KR 13/4 26
3. ÍR 12/5 24
4. Tindastóll 12/5 24
5. Njarðvík 10/7 20
6. Stjarnan 9/8 18
7. Grindavík 9/8 18
8. Keflavík 8/9 16
9. Þór Þ. 7/10 14
10. Valur 5/12 10
11. Þór Ak. 3/14 6
12. Höttur 1/16 2