Dominique Elliot leikmaður Keflavíkur gæti átt yfir höfði sér leikbann vegna olnbogaskots sem hann gaf Davíði Arnari Ágústssyni leikmanni Þórs Þ í leik liðanna í síðustu viku. Körfuboltakvöld sýndi atvikið í þætti sínum síðasta föstudag en engin dómari leiksins hafði séð þetta í leiknum. Vísir.is segir frá þessu í dag.

 

Dómaranefnd KKÍ hefur skoðað atvikið og ákveðið að kæra það til úrskurðar og aganefndar KKÍ sem tekur málið fyrir í vikunni. Aganefnd gæti þá dæmt hann í leikbann en það yrði ekki í fyrsta sinn á síðustu árum sem slíkt gerist út frá upptöku. Guðbjörg Norðfjörð formaður dómaranefndar og varaformaður KKÍ staðfesti við Vísi að atvikið hafi verið kært. 

 

Síðast var Junior Hairston dæmdur í tveggja leikja bann fyrir olnbogaskot gegn Skallagrím fyrir fjórum árum. Aganefnd fundar í vikunni og kemur þá í ljós hvort Elliot fær leikbann eða ekki. Keflavík samdi við Christian Jones á dögunum og því liðið með tvo erlenda leikmenn. 

 

Myndbrot af atvikinu má finna hér á vefsíðu Vísis.