Fjögur dýr stig á ferðinni í kvöld þegar KR tekur á móti Keflavík og Njarðvík fær Hauka í heimsókn í Domino´s-deild karla. Daníel Rúnarsson stórljósmyndari og íbúi í Danmörku um stund tekur það að sér þennan föstudaginn að rýna í leiki kvöldsins.

KR – Keflavík

Liðin eru á sitthvorum enda hamingjuskalans. KR-ingar loksins búnir að finna einhvern innri frið og komnir með fókus á að landa numero cinco. Neistinn virðist vera að kvikna aftur. Held að Geitin hafi kveikt hann með handafli. Í ofanálag eru KR-ingar svo væntanlega að frumsýna nýjan kana í kvöld sem mikið hefur verið hvíslað um undanfarið. Miklar væntingar.

Síðan höfum við Keflavík sem eru að eiga martraðartímabil. Ekkert gengur upp og einn færasti þjálfari landsins er allt í einu kominn í heitasta stól deildarinnar. Ég vona reyndar Keflvíkinga vegna að þeir horfi ekki á skammtímalausnir fram yfir langtíma. Þú færð ekki mikið færari menn en Friðrik Inga í þjálfarstöðuna.

Ef maður horfir á þetta svona þá ætti KR að valta yfir Keflvíkinga og ég eiginlega spái því bara. Ef KR byrjar sterkt, svipað og á móti Grindavík, þá gæti þetta einfaldlega endað mjög illa fyrir Suðurnesjamenn. Ef þessi leikur væri í nóvember þá gæti ég kannski haft trú á að Keflavík gæti komið á óvart – þá helst vegna værukærðar KR-inga – en KR er einfaldlega of reynt lið til að fara í eitthvað bull þegar svona stutt er í úrslitakeppnina. KR tekur þetta með yfir 20 stigum.

UMFN – Haukar

Þetta er auðvitað leikur Hauka að vinna. Það fer einfaldlega eftir því hvaða lið Ívar Ásgríms rúllar suður brautina með. Ég skil ekki þetta Haukalið. Þeir tapa í Þorlákshöfn, eru í basli með Keflavík og snýta svo Tindastól. Það eru fjögur lið sem ætla sér að vinna titilinn í vor, Haukar eru eitt þeirra. Ef þeir ætla sér alla leið þangað þá verða þeir að ráða við Njarðvík, í Njarðvík, þegar hillir undir lok febrúar. Það er gríðarlega mikið undir hjá Haukum að halda sig í toppnum. Þeir hafa ekki efni á því að tapa stigum í toppbaráttunni.

Njarðvíkingar eru í svolítið skrítinni stöðu. Eiga nánast ekki séns á að fara ofar í töflunni og þó svo að þeir fari eitthvað neðar þá skiptir það nánast ekki máli því þeir hafa ekki hugmynd um hvernig efstu liðin fjögur munu á endanum raðast – og þau eru öll ógnarsterk. Það er því spurning hvernig nafni minn og þjálfari Grænna ætlar að mótívera sína menn áfram. Njarðvíkingar hafa hinsvegar að mínu mati verið að stíga upp undanfarið. Ítalíu-fanginn er að finna taktinn betur og betur og Raggi Nat-vélin farinn að líkjast sjálfum sér. Ég sé heldur ekki hver eigi að stoppa hann í Haukaliðinu.

Mér hefur alltaf fundist að þegar Haukur Óskarsson spilar vel og nær takti í sókninni að þá spila Haukarnir vel. Ætla því að koma með smá twist. Ef Haukur fer yfir 14 stigin þá vinna Haukar. Ef Raggi fer yfir 14 stig og 12 fráköst þá vinnur Njarðvík. Ef báðir ná sínu markmiði þá endar heimurinn.