Mark Cuban eigandi Dallas Mavericks í NBA deildinni hefur verið sektaður um 600.000 Bandaríkjadollara eða því sem nemur liðlega 60 milljónum króna! Sektina hlaut Cuban fyrir ummæli sín um „tanking“ í Podcast-þætti hjá goðsögninni Dr. J (Julius Irving). En hvað er þetta „tanking“?

Kannski best að segja á íslensku að „tanking“ sé að tapa af ásetningi og í langflestum tilfella í NBA deildinni er það gert einungis þegar komið er nú þegar í óefni hjá viðkomandi liði til að eiga meiri líkur á því að velja snemma í nýliðavali næsta árs.

Adam Silver framkvæmdastjóri NBA deildarinnar hefur ekki þótt neitt lamb að leika sér við og deildin svaraði ummælum Cuban með hæstu sekt sem NBA hefur beitt Cuban eða 600.000 dollarar. Áður var hæsta sekt Cuban árið 2002 um 500.000 dollarar fyrir að kvarta undan dómgæslu en Cuban hefur frá 2001 hlotið fjölda sekta frá NBA deildinni en þetta er í fyrsta sinn sem hann er sektaður fyrir að tjá sig opinberlega um að Dallas sé viljandi að tapa leikjum.

Dallas eru 18-40 á tímabilinu sem er þriðji versti árangur deildarinnar um þessar mundir en liðið með versta árangur deildarinnar að keppni lokinni er það lið sem mun hafa 25% líkur á því að fá fyrsta valrétt í næsta nýliðavali. Frá og með árinu 2019 skv. nýrri reglugerð um nýliðavalið munu líkurnar falla niður úr 25% í 14%.

Dirk Nowitzki leikmaður Dallas sagði við Sports Illustrated að leikmenn mættu aldrei út á völl til að tapa og hann myndi aldrei láta bjóða sér að leika með liði sem tapaði viljandi.

Það blása frekari vindar í Dallas um þessar mundir því Terdema Ussery fyrrum framkvæmdastjóri Dallas verið sakaður um kynferðisofbeldi á meðan hann var í starfi hjá klúbbnum. Átti það sér stað gegn kvenkyns starfsmönnum Dalls á hart nær tveimur áratugum. Nowitzki hefur einnig tjáð sig um þetta mál og kvað það gríðarleg vonbrigði en ánægður með að málið væri komið fram.

Mynd/ Cuban eigandi Dallas Mavericks.