Borche var mjög sáttur við sína menn að leikslokum:

 

Borche, frábærir liðssigrar hjá ykkur, fyrst gegn Val og svo nú í kvöld án Matta og Daða.

 

Já, ég er sammála því. Þetta hafa verið góðir liðssigrar hjá okkur án Matta og Daða. Það sést á tölfræðinni í kvöld, 5 leikmenn skora yfir 10 stig og svo einn með 9 stig. Þetta snýst allt um framlag frá öllu liðinu. Meiðslin hafa þjappað okkur saman og leikmenn skilja það að þeir þurfa að vinna saman að því að bæta upp það sem við missum með þeim. Báðir þessir leikir hafa verið mjög erfiðir, ekki síst Valsleikurinn. Við lentum í miklum vandræðum gegn þeim í fyrri umferðinni. Við byrjuðum líka illa í þessum leik, við vorum svolítið að leita að flæðinu án Matta.

 

Ég tók eftir því að Ryan bar boltann upp eftir varnarfráköst og leiddi liðið í hraðaupphlaupum. Það hefur verið með ráðum gert?

 

Já, við ákváðum að gera það, það var hugsað til að létta aðeins á leikstjórnanda okkar. Ryan er afar hæfileikaríkur leikmaður og getur spilað nánast eins og leikstjórnandi af og til. Hann leiddi hraðaupphlaup hjá okkur og það skilaði sér í nokkrum auðveldum körfum. En ég er einnig mjög ánægður með leik Hákons í kvöld. Hann stýrði liðinu af öryggi, stýrði hraða leiksins og fór ekki út í neina vitleysu. Mjög vel af sér vikið hjá svona ungum leikstjórnenda. 

 

Einmitt, Hákon átti verulega góðan leik í kvöld.

 

Já, hann stýrði takti og hraða leiksins afar vel, ég er mjög ánægður með hans frammistöðu.

 

Nú var leikurinn jafn þar til þið stunguð af í byrjun seinni hálfleiks. Hvað breyttist?

 

Við vorum svolítið stífir gegn svæðisvörninni þeirra í byrjun og við þurftum tíma til að aðlagast. Eftir því sem á leið þá fundum við taktinn betur. Ég tel að við séum með betra lið en Þór Akureyri svo þetta var spurning um hvenær en ekki hvort að við tækjum yfir leikinn. Við náðum svolitlu áhlaupi á þá í þriðja og náðum um 15 stiga forystu og þá var þetta erfitt fyrir Þór eftir það. En ég ber fulla virðingu fyrir Þór, þeir börðust vel og eru að berjast um sæti sitt, ég vona að þeim takist það því þeir koma með ferskan blæ að norðan inn í deildina og ég óska þeim alls hins besta.

 

Hver er staðan á Matta og Daða, verða þeir með í næsta leik?

 

Vonandi, Matti er að hvíla því við viljum alls ekki að meiðslin sem hann er að glíma við verði verri. Ég held að hann verði tilbúinn eftir nokkra daga, a.m.k. ætti hann að vera tilbúinn fyrir næsta leik gegn Grindavík.

 

Meira um leikinn hér.

 

Viðtal / Kári Viðarsson