Tindastóll vann gríðarlega mikilvægan sigur á Keflavík í Síkinu í kvöld.

 

Heimamenn í Tindastól töpuðu síðasta leik í deildinni gegn Haukum og máttu alls ekki við því að misstíga sig í toppbaráttunni.  Keflavík hefur gengið bölvanlega eftir áramótin og voru að reyna að koma sér á rétta braut og voru ekki langt frá því.

 

Leikurinn byrjaði jafnt og menn skiptust á körfum en svo hertu Stólar tökin í vörninni og hentust framúr með 23-4 kafla þar sem Keflavík voru að spila eins og algerir byrjendur.  Staðan 31-14 eftir fyrsta leikhluta og útlitið bjart.  Heimamenn héldu áfram í 2. leikhluta og náðu mest 25 stiga forystu en Keflavík náði aðeins að klóra í bakkann og 20 stigum munaði í hálfleik. 

 

Í þriðja leikhluta var komið að Keflavík að koma með áhlaup og þeir átu forskot heimamanna jafnt og þétt niður í 5 stig þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta.  Þristur frá Pétri Rúnari og langur tvistur frá Davenport löguðu málið aðeins fyrir lokaleikhlutann og staðan 71-63. 

 

Upphaf fjórða leikhluta var svo algerlega eign heimamanna og þeir settu niður 4 þrista í röð áður en Keflavík komst á blað og staðan allt í einu orðin 83-63.  Keflvíkingar voru þó ekkert á því að gefast upp og þegar 5 mínútur voru eftir settu þeir gríðarlega pressu á heimamenn sem virtust vera að brotna þegar Pétur Rúnar fékk á sig sóknarvillu og tæknivillu þegar rúmar 2 mínútur voru eftir og Hörður Axel setti þrist í næstu sókn á eftir, and one og munurinn kominn niður í 8 stig. 

 

Ragnar Örn Bragason setti svo enn einn þrist gestanna og minnkaði muninn í 5 stig og menn algerlega að bilast í Síkinu.  Í næstu sókn heimamanna urðu gestirnir hinsvegar aðeins of ákafir í vörninni og dæmd var óíþróttamansleg villa á Ragnar Örn fyrir að slá til Friðriks eftir að flautan gall.

 

Heimamenn kláruðu svo leikinn af vítalínunni og menn önduðu léttar í Síkinu.  Tindastóll hafði staðist áhlaupið.

 

Þáttaskil:

Byrjun heimamanna í 4. leikhluta þar sem þeir náðu 20 stiga mun reyndist banabiti Keflavíkur

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Tindastóll tók 44 fráköst á móti einungis 31 hjá Keflavík og hittu miklu betur úr sínum þristum en gestirnir, 44% gegn 29%  Þá hittu heimamenn betur úr vítum sem ég held að sé í fyrsta skipti í vetur.

 

 

 

Hetjan:

Antonio Hester (31 stig og 9 fráköst) og Pétur Rúnar (26 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar) áttu stórleik hjá Tindastól. Hörður Axel var öflugur fyrir gestina en það dugði ekki til.

 

 

Kjarninn:

Tindastóll er með töluvert sterkari liðsheild en Keflavík og það skilaði sigri í lokin

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, mynd & viðtal / Hjalti Árna

 

Mynd: Hester var öflugur í kvöld

 

Viðtal: