Haukar voru rétt í þessu að ganga frá samningum við Whitney Frazier, en hún mun vera á leið til landsins bráðlega til að taka við af Cherise Daniels sem erlendur leikmaður Hauka. Ingvar Þór þjálfari og öll stjórn Hauka vilja þakka Cherise fyrir sitt framlag til liðsins og óska henni velfarnaðar í framtíðinni.
 

Whitney kom seinast til Íslands beint úr háskólaboltanum hjá Louisiana Tech þar sem hún var að meðaltali með 14.8 stig, tók 7.1 fráköst, gaf 2.1 stoðsendingar og stal 1.7 boltum í leik.

Hún spilaði með Grindavík tímabilið 2015-2016 og var að meðaltali með 21.9 stig, tók 11.6 fráköst, gaf 3.2 stoðsendingar og stal 2.6 boltum í leik í úrvalsdeild kvenna.

Næst hélt hún út í finnsku kvennadeildina þar sem hún spilaði með Kouvot. Þar var hún yfir eitt og hálft tímabil að meðaltali með 16.1 stig, tók 9.7 fráköst, gaf 2.4 stoðsendingar og stal 1.9 boltum í leik. Samningi hennar við Kouvot var nýlega sagt upp vegna ótilgreindra aðstæðna en hún mun væntanlega styrkja Haukastelpurnar þegar þær mæta á Ásvalla-parketið 17. janúar gegn Njarðvík í fyrsta leik liðsins eftir Maltbikarhelgina.

 

Uppfært 17.01.18. – Frazier er nú komin með leikheimild og verður því líklega með liðinu gegn Njarðvík í kvöld í 16. umferð Dominos deildarinnar