Höttur mætti ÍR í fyrsta heimaleik sínum þetta árið í Dominos deild karla og var leikurinn hrikalega spennandi og baráttumikill. Hattarar áttu ennþá eftir að næla sér í sinn fyrsta sigur komandi inn í leikinn svo það var vitað að þetta yrði erfiður leikur á móti toppliði ÍR.

     

Hattarar voru yfir eftir fyrsta leikhluta 21 – 14 þar sem ÍR skutu boltanum vægast sagt illa (26% frá vellinum). Í 2. Leikhluta fær Gísli Þórarinn sína fimmtu villu og villar sig út ásamt því að ÍR-ingar taka 13-0 sprett og jafna leikinn í hálfleik. ÍR-ingar taka síðan fyrstu forystu sína, síðan í fyrsta leikhluta, þegar þriðji leikhluti er nýbyrjaður en halda henni ekki lengi þar sem liðin skiptust á að taka forystuna jafnt og þétt. Þriðji leikhluti var nokkuð jafn en enn og aftur ná ÍR-ingar að taka sprett í lokin og endurheimta forystuna með 9-0 spretti, staðan 61-63 ÍR í hag.

 

Þáttaskil

Í byrjun fjórða leikhluta virðist eitthvað hafa kviknað í ÍR-ingum, Mirko og Nökkvi villa sig út hjá Hetti og þaðan hleypur ÍR af með forustuna. ÍR-ingar leiddu mest með 21 stigi í fjórða leikhluta en hattarar söxuðu örlítið á þá forystu og leikur endar 74 – 90.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Hattarar komu sér í villuvandræði snemma og hlutirnir áttu bara eftir að versna með leiknum og enduðum þeir með 27 villur gegn 10 villum ÍR-inga. Bæði lið skutu nokkuð jafnar prósentur frá vellinum og fráköstuðu vel en ÍR komst afgerandi meira á vítalínuna þar sem ÍR-ingar skutu 27 víti og Hattarar aðeins 9.

 

Hetjan

Að mati skrifara var hetja leiksins Matthías Orri, þar sem hann skilaði 19 stigum á 55% skotnýtingu, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Hann var maðurinn sem kom með hraða og stórar körfur inn í sóknarleikinn hjá ÍR sem virtist vera í molum í fyrri hálfleik.

 

Kjarninn

ÍR-ingar halda fast í toppsætið eftir þennan tíunda sigur þeirra en Hattarar sitja ennþá á botninum stigalausir. ÍR-ingar sýndu mikil gæði undir lokin á meðan Hattarar misstu boltann óheppilega frá sér og fengu á sig nokkrar klaufavillur í lok leiks. Hattarar sýndu gríðarlega mikla baráttu í leiknum og sýndu áhorfendum Brauð og co. Hallarinnar að þeira eiga sannarlega heima í Úrvalsdeildinni en það vantaði bara þetta “fíness” í lokin.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Aron Steinn Halldórsson