Valskonur komu sér aftur á topp Dominos deildar kvenna eftir góðan sigur á Skallagrím í kaflaskiptum leik. Þetta var annar leikur Ara Gunnarssonar sem þjálfara Skallagríms en hann þjálfaði lið Vals síðustu tvö tímabil. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins.

 

Valsarar byrjuðu mun betur og náðu forystunni strax. Skallagrímskonur virtust sem steinrunnar í byrjun leiks og voru langt frá því klárar í baráttuna. Valur komst í 17-4 í fyrsta leikhluta og ansi margt leit út fyrir að heimakonur ætluðu að valta yfir Skallagrím. 

 

Í seinni hluta fyrsta leikhluta og í öðrum náði Skallagrímur að komast á skrið og náði að komast tíu stigum yfir fyrir hálfleik 43-33. Carmen Tyson-Thomas fór fyrir sínum konum og var komin með 23 stig í hálfleik. 

 

Skallagrímur jók forystuna i byrjun seinni hálfleiks og komst í 50-38 forystu. Þegar leið á þriðja leikhluta náði Valur með fínni svæðisvörn að minnka muninn og munaði fimm stigum á liðunum þegar síðasti leikhluti hófst.

 

Fjórði leikhluti var ansi skrautlegur. Valur náði yfirhöndinni en um miðbik leikhlutans en eftir það skiptust liðin á að hafa forystuna. Að lokum var það Valur sem landaði 77-73 sigri eftir æsilegar lokasekúndur. 

 

Hetjan:

 

Aalyah Whiteside var virkilega öflug fyrir Valsara í dag. Hún lét dóma og slíkt fara full mikið í taugarnar á sér í fyrri hálfleik en í þeim seinni sýndi hún leiðtogahæfileikana. Hún endaði með 35 stig, 12 fráköst og þrjá stolna bolta. Þá er hún með níu fiskaðar villur og reyndist vörn Skallagríms mjög erfið. 

 

Hjá Skallagrím var Carmen að vanda öflug en það dróg aðeins af henni í seinni hálfleik. Hún endaði með 32 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar. 

 

Kjarninn:

 

Í viðtali eftir leik hafði Darri Freyr þjálfari Vals litlar útskýringar á hvað hafi gert þennan sigur. Það má segja að það sé ansi eðlilegt en þetta var ansi furðulegur körfuboltaleikur. Liðin tóku kafla hér og þar, svo klisjan um að sigurinn hefði getað endað báðum megin á sannarlega við í þessu tilfelli.

 

Valskonur voru ekki sannfærandi en það er ákveðinn meistarabragur yfir því að ná í sigur þegar liðið spilar ekki vel. Það má segja að önnur ára sé yfir liði Borgnesinga í dag. Leikmenn eru tilbúnir að fórna sér meira fyrir hvorn annan og virðast hafa mun meira gaman af hlutunum. 

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór) 

 

Viðtöl eftir leik: