Vestramenn tóku á móti gestunum frá Akranesi um helgina. Spilað var á laugardegi og sunnudegi. Skagamenn hafa ekki unnið leik í vetur en lið Vestra er í baráttu um umspilssæti og ósigraðir á heimavelli.

 

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Íþróttahúsinu á Torfnesi. Búið er að leggja nýtt parket en gamla gólfið var löngu ónýtt. Dauðir punktar, misfellur og flísar heyra nú söguni til. Þetta er eins og að koma af mölinni inn á malbikið.

 

Fyrri leikur liðana sem fór fram á laugardagskvöldi var mjög rólegur. Heimamenn tóku snemma forustu og leiddu 27 – 13 eftir fyrsta leikfjórðung. ÍA náðu aldrei að komast inn í leikinn. Yngvi þjálfari Vestra róteraði vel og fengu flestir leikmenn 10 mínútur eða meira inn á vellinum.

 

Seinni leikurinn fór fram í dag og var öllu skemmtilegri. Liðin skiptust á því að leiða framan af leik. Skagamenn augljóslega haft gott að loftinu fyrir vestan, voru mun líflegri og tilbúnari í leikinn.

 

Þáttaskil:

 

Fyrri leikur liðanna einkenndist af því að þegar byrjunarliðið Vestra var ekki fullmannað inn á, þá kroppuðu leikmenn ÍA nokkur stig. Nemanja og Nebosja spiluðu ekki nema 55 mínútur samanlagt. Öruggur vel úthugsaður sigur sem var alveg laus við það að vera eitthvað fyrir augað (96 – 71).

 

Seinni leikurinn var eins og áður sagði mun líflegri. Það var ekki fyrr en undir lok 3. leikhluta að heimamenn í Vestra náðu að búa til 6 stiga forskot sem gestirnir að sunnan náðu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir aldrei að minnka niður í meira en 3 stig. Síðustu þrjár mínútur leiksins pressuðu heimamenn allann völlinn og lönduðu að lokum 13 stiga sigri (93 – 80).

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Í fyrri leiknum hittu ÍA ágætlega úr þristum, þeir voru með 32%, en hittu skelfilega fyrir innan þriggjastiga línuna, aðeins 31%. Vestri aftur á móti voru með 67% fyrir innan línuna en bara 8% fyrir utan. Skelfileg þriggja stiga nýting, en þeir bættu það upp með því að rífa niður 57 fráköst á móti 36 fráköstum gestanna.

Í seinni leiknum hittu bæði liðin betur og því færri fráköst, en heimamenn tóku engu að síður fleiri, 42 – 34.

 

Hetjan:

 

Marcus Levi Dewberry var með 34 stig og 32 í framlag í fyrri leiknum og 42 stig og 43 í framlag í þeim seinni. Hann var svolítið seinn í gang í fyrri leiknum en mætti heitur í seinni leikinn. Glæsilegar tölur hjá þessum snögga, flotta leikmanni.

 

Hjá heimamönnum voru það Knezevic félagarnir sem fóru fyrir sýnum mönnum í báðum leikjum. Nebosja með 33 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og 41 í framlag og Nemanja með 17 stig, 19 fráköst, 4 stoðsendingar og 30 í framlag í fyrri leiknum.

 

Í seinni leiknum var Nebosja með 28 stig, 4 fráköst, 6 stoðsendingar og 21 í framlag og Nemanja með 31 stig, 17 fráköst, 6 stoðsendingar og 56 í framlag takk fyrir túkall. Það er engin spurning um það að Knezevic félagarnir eru bestu ,,íslenski” og erlendi leikmaður deildarinnar.

 

Kjarninn:

 

Breidd og gæði heimamanna í Vestra voru of mikil fyrir gestina frá Akranesi. Þrátt fyrri góða takta á köflum, þá dugði það aldrei til. ÍA eiga hrós skilið fyrir það að koma rétt stemmdir í seinni leikinn og gefa sig alla í verkefnið.

 
 
Umfjöllun / Þormóður Logi Björnsson