Valencia vann sterkan sigur á Khimki Moscow í Euroleague í kvöld. Lokastaðan var 85-83 fyrir Valencia sem hefur verið að rétta úr kútnum eftir erfitt haust í deildinni. 

 

Tryggvi Snær Hlinason spilaði nærri 11 mínútur fyrir liðið og var virkilega góður. Hann endaði með 7 stig, fimm fráköst, þar af fjögur sóknarfráköst og eitt varið skot. 

 

Þar með varð hann fjórði framlagshæsti leikmaður Valencia í leiknum með 11 framlagsstig en hann nýtti skot sín vel. Tibor Pleiss var stigahæstur með 15 stig og bætti 9 fráköstum við það. 

 

Valencia er þá í þrettánda sæti í Euroleague eftir tuttugu umferðir. Liðið hefur unnið fjóra af síðustu sex leikjum eftir að hafa tapað 10 leikjum í röð þar á undan. Liðið mætir botnliði Andalou Efes í næstu umferð.