Þór 74 – Haukar 96

 

Gangur leiks eftir leikhlutum: 18/25 – 20/22 (38-47) 13/32 – 23/17 lokatölur Þór 74 – Haukar 96

 

Topplið Hauka reyndist of stór biti fyrir hið unga lið Þór þegar liðin mættust í 12. Umferð Domino´s deildar karl í leik sem fram fór í íþróttahöllinni í kvöld. 

 

Leikurinn fór rólega af stað og fyrstu stig leiksins komu eftir aðeins 12 sekúnda leik og það var Nino Johnson nýr leikmaður Þórs sem þar var á ferðinni. En því miður fyrir Þór þá var þetta í eina sinn í leiknum sem Þór leiddi.  Haukar jöfnuðu leikinn fljótt og náðu svo forystunni 2-4 mínútu síðar. Nokkurt jafnræði var svo með liðunum en þegar rúm mínúta lifði leikhlutans var staðan jöfn 18-18.  Haukar skoruðu svo síðustu sjö stigin í fjórðungum og leiddu 18-25 þegar annar leikhluti hófst.

 

Gestirnir voru ávallt skrefinu á undan Þór í öðrum leikhluta og náðu með 10 stiga forskoti 35-45. Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en Haukar unnu hann með tveim stigum 20-22 og leiddu í hálfleik með 9 stigum 38-47.

 

Segja má að níu stiga munur á liðunum hafi gefið ágæta mynd af gangi leiksins. Gestirnir hittu betur en leikmenn Þórs sem á köflum voru heldur lánlausir í sínu helstu aðgerðum en allur síðari hálfleikurinn var eftir og allt gat gerst.

 

Margir stuðningsmenn Þórs höfðu það á orði í hálfleik að nú væri slæmi kaflinn búinn og nú myndi Eyjólfur hressast. En því miður lét góði kaflinn á sér standa og gestirnir mættu til síðari hálfleiks með þvílíkum látum að það hálfa væri nóg. Um miðjan þriðja leikhluta höfðu gestirnir náð 21 stigs forskoti 42-63. Haukar unnu leikhlutann 13-32 og leiddu með 28 stigum þegar lokakaflinn hófst 51-79. Hér var í raun dagskránni lokið og aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti.

 

Hinir ungu leikmenn Þórs létu til sín taka í fjórða leikhluta þeir börðust eins og ljón og voru ekki búnir að leggja árar í bát. Þeir köstuðu sér á eftir öllum boltum og gáfu toppliðinu engan frið. Og eftir á að hyggja má slá því föstu að hafi leikmönnum Þórs lánast að spila lungann úr leiknum af sama ákafa og í fjórða leikhlutann hefði leikurinn geta farið á hvorn vegin sem var. En 22 stiga sigur Hauka staðreynd og var sigurinn aldrei í hættu. 

 

Hjá Þór var Pálmi Geir bestur í kvöld hann var með 17 stig og 8 stoðsendingar. Nino Johnson virkaði lengst af heldur ragur í sínum fyrsta leik en hann skoraði samt 15 stig var með 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Hilmar Smári var með 10 stig, Júlíus Orri 7, Ingvi Rafn 6, Einar Ómar og Ragnar Ágústsson 5 stig hvor, Sindri Davíðsson 4, Hreiðar Bjarki 3 og Bjarni Rúnar 2.

 

Hjá Haukum var Haukur Óskarsson mjög öflugur hann setti niður 21 stig og var með 6 fráköst, Breki Gylfason 19, Paul Anthony 17, Kári Jónsson 14, Kristján Leifur 10, Emil Barja 8 og Hjálmar Stefánsson 7.

 

Leikmenn Þórs áttu ekki góðan leik í kvöld og það vita þeir vel sjálfir. Til þess að eiga möguleika gegn liðum eins og Haukum er ekki nóg að tveir eða þrír leikmenn séu nálægt meðaltali, allir þurfa eiga toppleik. Það gerðist ekki í kvöld og því fór sem fór. 

 

Eins og áður segir geta leikmenn Þórs gert miklu betur.  Nóg er eftir að mótinu og ekki í boði að hengja haus heldur mæta í næsta verkefni sýna þar sitt rétta andlit og hefja vegferðin upp á við. 

 

Tölfræði leiksins 

Staðan í deildinni 

 

Eftir leikinn í kvöld situr Þór enn sem fyrr í ellefta sæti deildarinnar með 4 stig en Haukar tróna sem fyrr á toppi deildarinnar með 18 stig líkt og KR og ÍR. 

 

Myndir úr leiknum: Palli Jóh