Tindastóll sigraði KR í úrslitaleik Maltbikarsins 2018 með 96 stigum gegn 69. TStólarnir því bikarmeistarar þetta árið, en þetta er fyrsti titill sögunnar hjá félaginu.

 

 

Gangur leiks

Ljóst var frá fyrstu mínútu í hvað stefndi. Tindastóll skoruðu fyrstu 14 stig leiksins. Sá eini með lífsmarki sóknarlega fyrir KR, Björn Kristjánsson, en hann skoraði fyrstu 11 stig þeirra í leiknum. KR liðið hinsvegar tók ekkert við sér. Tindastóll leiddi með 12 stigum eftir fyrsta leikhlutann, 28-16. Undir lok fyrri hálfleiksins bættu stólarnir svo bara í. Enda hálfleikinn með 24 stiga forystu, 57-33.

 

Hræðilegur fyrri hálfleikur hjá KR, þar sem þeir töpuðu heilum 14 boltum. Sóknarlega voru Stólarnir líka heitir, settu 10 af 19 þriggja stiga skota sinna í fyrri hálfleiknum.

 

Seinni hálfleikur leiksins var svo aldrei spennandi. Eftir þrjá leikhluta var Tindastóll ennþá með 19 stiga forskot, en þeir sigra leikinn svo að lokum með 27 stigum, 69-96. Glæsilegur sigur fyrir þá, en KR þurfti að sætta sig við sögulega stórt tap í bikarúrslitaleik.

 

Á báðum endum

Ef litið er til stöðunnar í hálfleik þá má vart sjá hvort Tindastóll var að vinna þennan leik á sókn eða vörn. Halda gífurlega góðu liði KR í aðeins 33 stigum á meðan þeir sjálfir setja 57. Varnarlega héldu þeir þessu út leikinn, en ekki alveg sóknarlega.

 

Kjarninn

Leikurinn í dag var í raun aldrei spennandi nema fyrir þær sakir að um bikarúrslitaleik var að ræða. Leikmenn Tindastóls sáu til þess. Komu virkileg tilbúnir til leiks og litu aldrei til baka. Vel gert hjá þeim og sjaldan eða aldrei hefur lið verið jafn verðugur sigurvegari og þeir í dag.

 

Nýr erlendur

Jafn vel mannað lið og KR liðið er, þá hefur framlag þeirra erlenda leikmanns ekki alltaf skipt máli. Þessi leikur hlýtur þó að vera söguleg lægð fyrir þá. Tveir erlendir leikmenn þeirra, Zac Carter og Brandon Penn, setja 1/6 skota sinna, taka 8 fráköst, gefa 3 stoðsendingar og enda með 2 samanlagt í framlag á 19 mínútum spiluðum.

 

Hetjan

Stólaliðið var frábært í dag. Fremstur meðal jafningja þar var leikstjórnandinn Pétur Rúnar Birgisson. Pétur skoraði 22 stig, tók 7 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Viðtöl / Ólafur Þór & Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtöl: