Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Íslandsmeisturum Keflavíkur í Domino‘s deild kvenna. Fyrir leik voru Garðbæingar í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig, en Keflavík var með 24 stig í öðru til þriðja sæti.
Eftir að Stjörnukonur komust 12 stigum yfir um miðjan annan leikhluta tók við rosalegur kafli hjá gestunum, sem náðu að komast einu stigi yfir fyrir hálfleik, 41-42. Gestirnir byrjuðu seinni hálfleik nákvæmlega eins og þær hófu þann fyrri og voru Íslandsmeistararnir fljótlega komnar 14 stigum fram úr Stjörnukonum, sem virtust á þessum tímapunkti ekki líklegar til afreka. Fljótlega tróðu þær þó sokk upp í efasemdafólk og tóku þá glæsilegt 17-0 áhlaup, þar á meðal fimm þrista, og komust yfir fyrir lokafjórðunginn, 59-56. Eftir æsispennandi lokafjórðung, þar sem vörnin var í aðalhlutverki, fór það svo að Stjarnan styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar.
Lykillinn
Stjörnukonur virtust hafa grafið sér djúpa holu þegar þær voru komnar 14 stigum undir gegn Íslandsmeisturunum í þriðja leikhluta, en með ótrúlegri skotsýningu náðu Garðbæingar að grafa sig úr þeirri holu. Stjörnukonur hittu úr fimm af síðustu sex þriggja stiga körfum sínum í þriðja leikhluta, sem lagði grunninn að frábærum sigri þeirra í kvöld.
Hetjan
Líkt og svo oft áður var Danielle Rodriguez best í liði Stjörnunnar með þrefalda tvennu, 27 stig, 12 fráköst og 10 stoðsendingar. Hún fær þó verðuga samkeppni um hetjunafnbótina frá Bríeti Hinriksdóttur, sem átti stóran þátt í frábærum 17-0 kafla heimakvenna í þriðja leikhluta. Bríet skoraði þá 3 þrista á skömmum tíma, sem kveikti sannarlega í Garðbæingum.
Framhaldið
Stjarnan er eftir leikinn með sex stiga forskot á Skallagrím og Breiðablik í fjórða sæti deildarinnar, með 22 stig, en Keflavík er tveimur stigum fyrir ofan. Næst spilar Stjarnan gegn Snæfelli í Stykkishólmi, á meðan Keflavík fær Skallagrím í heimsókn.
Umfjöllun / Elías Karl
Viðtöl / Helgi Hrafn
Viðtöl: