Stjarnan tók í kvöld á móti Njarðvík í 14. umferð Domino’s deildar karla. Bæði lið eru í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppni en gestirnir voru í 5. sæti með 16 stig, á meðan heimamenn voru í því 8. með 12. Eftir að Stjörnumenn höfðu haft 13 stiga forystu í hálfleik, 45-32,  náðu gestirnir fljótlega að vinna þann mun upp í seinni hálfleik. Fjórði leikhluti var í járnum, en Njarðvíkingar komust á tímabili fjórum stigum yfir. Þegar 4 sekúndur lifðu af leiknum var staðan jöfn 75-75 og var boltinn í höndum Stjörnumanna. Collin Pryor fékk boltann efst á „lyklinum“ og fór í afskaplega þvingað og erfitt skot, sem fór þó beinustu leið ofan í, auk þess sem Njarðvíkingar brutu á Pryor. Vítaskotið geigaði að vísu, en þær 1,7 sekúndur sem lifðu af leiknum voru of naumur tími fyrir Njarðvík til að gera nokkurn skapaðan hlut. Niðurstaðan var því afskaplega sterkur Stjörnusigur í hörkuleik.

 

Lykillinn

Stjörnumenn virtust vera að missa dampinn verulega þegar Njarðvíkingar komust fjórum stigum yfir í lokafjórðungnum, en í stöðunni 65-66 skoraði Róbert Sigurðsson tvo risastóra þrista í röð, sem komu heimamönnum aftur á bragðið og það sem meira er, fimm stigum yfir. Njarðvíkingar voru þó ekki af baki dottnir og þurfti ævintýralega körfu frá Pryor til að klára leikinn.

 

Hetjan

Þó að Róbert Sigurðsson hafi kannski ekki verið stigahæstur í kvöld þá komu áðurnefndir þristar Róberts Sigurðssonar á hárréttu augnabliki fyrir heimamenn, sem náðu að nýta sér þá sex stiga sveiflu og knýja fram sigur.

 

Framhaldið

Njarðvík er nú í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan í því 6. með 14. Næsti leikur Stjörnunnar er 25. janúar í Ásgarði gegn Þór Þorlákshöfn en Njarðvíkingar leika næst 24. janúar í Ljónagryfjunni gegn ÍR.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Elías Karl

Myndir / Bára Dröfn