Þrátt fyrir fjör á Njarðvíkingum í Maltbikarnum tekst þeim ekki að finna sigur í Domino´s-deild kvenna. Stjarnan gerði góða ferð í Ljónagryfjuna í kvöld með örugguma 64-86 sigri. Danielle Rodriguez var stigahæst í liði Stjörnunnar í dag með svakalega þrennu eða 30 stig, 19 fráköst og 17 stoðsendingar! Bríet Sif Hinriksdóttir bætti við 20 stigum. Hjá Njarðvík var Shalonda Winton stigahæst með 21 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.

 

Garðbæingar opnuðu leikinn með látum og komust í 0-13 en Njarðvíkingar rönkuðu þó við sér á endanum en máttu láta 34 stigum rigna yfir sig á fyrstu 10 mínútunum. Stjarnan leiddi 22-34 eftir fyrsta leikhluta en heimakonur börðu sig nærri og staðan 41-51 í hálfleik. Í síðari hálfleik jók Stjarnan hægt en örugglega bilið og lauk leik 64-86 eins og áður greinir.

 

Flugeldar

 

Stjörnukonur voru ófeimnar við að láta rigna þristum í kvöld, Bríet Sif Hinriksdóttir setti sex þrista í leiknum en þetta var í annað sinn á tímabilinu sem hún skorar sex þrista í einum leik og er hún eini leikmaðurinn til að hafa náð því á leiktíðinni til þessa.

 

Met

 

Stjarnan skaut 40 þristum í kvöld sem eru flestir þristar í einum deilarleik þetta tímabilið,14 rötuðu rétta leið sem gerir 35% skotnýtingu en óhætt er að segja að Stjarnan hafi einfaldlega skotið Njarðvík í kaf í kvöld.

 

Frammistaðan

 

Það verður ekki annað sagt en að Danielle Vicotria Rodriguez hafi farið hamförum í kvöld með þessa skaðræðisþrennu eða 30 stig, 19 fráköst og 17 stoðsendingar.

 

Næsti leikur Stjörnunnar í deildinni er 31. janúar gegn Keflavík í Ásgarði en Njarðvíkingar taka á móti Snæfell þann 30. janúar í Ljónagryfjunni.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn