Í kvöld fékk Breiðablik nágranna sína í Gnúpverjum í heimsókn í Smárann. Fyrir leikinn voru Blikar í öðru sæti, einum sigri á eftir Skallagrím, á meðan að Gnúpverjar voru í því sjöunda. Eftir jafna og góða byrjun drög aðeins af Gnúpverjum þegar líða tók á leikinn og Blikar tryggðu sér 99-78 sigur.
 

Gangur leiksins

Erlendur leikmaður Gnúpverja, Everage Richardson, opnaði leikinn ansi glæsilega fyrir gestina og skoraði fyrstu 14 stig liðsins. Á sama tíma opnaði Erlendur, leikmaður Breiðabliks, leikinn fyrir heimamenn með því að skora fyrstu 8 stig síns liðs. Jafnræði var á liðunum og góður sóknarleikur að rúlla hjá þeim báðum. Fyrsta leikhlutanum lauk með eilitlum yfirburðum Gnúpverja, 23-24.

Blikar gengu aðeins á lagið í öðrum leikhlutanum meðan Gnúpverjar kólnuðu á sama tíma. Á fyrstu 5 mínútunum hertu heimamenn sig og tóku 13-3 áhlaup. Richardson, sem hafði skorað 16 stig á fyrstu 10 mínútum leiksins skoraði aðeins 2 stig það sem eftir lifði fyrrihálfleiks. Gnúpverjar höfðu sem betur fer Atla Örn Gunnarsson til að halda liðinu á floti, en hann skoraði 8 af 12 stigum síns liðs í öðrum leikhlutanum. Fyrri hálfleikur endaði 21-12 fyrir heimamönnum og staðan því 44-36 þegar liðin héldu inn í búningsklefana sína.

Breiðablik gat ekki alveg slitið sig frá gestunum til að byrja með í seinni hálfleik og Gnúpverjar létu reyna á að minnka muninn. Það tókst hins vegar ekki og þó að svæðisvörn Gnúpverja virtist takmarka heimamenn í skori framan af þá gátu gestirnir ekki látið sóknina ganga nógu vel né halda aftur af hraðaupphlaupum Blika sem komu í framhaldinu af töpuðum boltum. Blikar unnu leikhlutann með tveimur stigum og fóru liðin inn í lokafjórðunginn í stöðunni 68-58.

Það virtist opna fyrir flóðgáttirnar í skotum Blika í fjórða leikhluta, en þeir hittu 6 af 11 í þriggja stiga skotum (54.5% nýting) og 5 af 9 í tveggja stiga skotum (55.6% nýting). Gnúpverjar áttu ágætan 20 stiga fjórðung, en gegn 31 stigum Breiðabliks dugði það skammt. Leiknum lauk eins og áður sagði 99-78, Breiðablik í vil.
 

Þáttaskil

Leikurinn vannst í öðrum og fjórða leikhluta leiksins, en í öðrum leikhlutanum tókst Gnúpverjum ekki að skora gegn Blikum og í fjórða leikhlutanum gátu þeir ekki stöðvað Blika í að skora. Var ekki mikið flóknara en svo.
 

Maður leiksins

Í öðrum leiknum í röð átti Erlendur Ágúst Stefánsson góðan leik, spilaði öfluga vörn, opnaði leikinn fyrir sína menn og skoraði mest allra í leiknum. Í leiknum skoraði hann 21 stig, tók eitt frákast, gaf 3 stoðsendingar, stal einum bolta og í +/- var hann +20. Þetta gerði hann þrátt fyrir að vera aðeins tæpar 20 mínútur inn á í leiknum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Breiðablik átti flesta tölfræðiþætti í leiknum og hittu betur úr skotunum sínum ásamt því að fá fleiri skot (37/77 í skotum utan af velli gegn 29/69). Bekkurinn hjá Breiðablik var líka öflugur, en þeir skoruðu 39 stig gegn 16 hjá Gnúpverjum.
 

Kjarninn

Breiðablik sitja sem fastast í öðru sæti deildarinnar eftir 17 leiki og eru aðeins einum sigri á eftir Skallagrím, sem unnu sinn leik í kvöld líka. Gnúpverjar hafa bara unnið einn leik gegn liði fyrir ofan þá í deildinni og með 7 leiki eftir þurfa þeir að spila aðeins betur en í þessum leik ef þeir vilja af einhverri ástæðu lenda fyrir ofan Fjölni í deildarkeppninni. Næsti leikur Blika er stór leikur, en þeir fá Vestra í heimsókn til sín í þriðja leiknum milli liðanna. Liðin hafa skipt með sér sigrum í fyrstu tveimur leikjunum og þetta gæti verið leikurinn sem segir til um hvaða lið verður í 1.-2. sæti deildarinnar. Sjáumst í Smáranum næsta fimmtudag!
 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Ólafur Þór Jónsson

Viðtöl eftir leikinn:

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson