Sólrún Inga Gísladóttir er heldur betur að gera góða hluti í bandaríska háskólaboltanum en hún gekk til liðs við Coastal Georgia fyrir þetta tímabil. 

 

Í kvöld vann liðið góðan sigur á Keiser háskólanum 95-70 þar sem Sólrún lék á alls oddi. Hún endaði með 27 stig og var langstigahæst í liði Coastal Georgia. Auk þess var hún með fjögur fráköst og hitti úr níu þriggja stiga skotum í leiknum í fimmtán tilraunum. 

 

Sólrún er næst stigahæst í liðinu að meðaltali í leik en hún er með 12,1 stig í leik og með yfir 40% skotnýtingu fyrir aftan þriggja stiga línuna. 

 

Coastal Georgia mætir Johnson and Wales háskólanum á laugardag en leikurinn er í beinni útsendingu á heimasíðu liðsins.