Þór Akureyri lagði Keflavík í Keflavík með 100 stigum gegn 98 í 13. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er Keflavík í 5.-7. sæti deildarinnar með 14 stig ásamt Grindavík og Njarðvík á meðan að Þór er í því 11. með 6 stig.

 

Leikur kvöldsins var jafn og spennandi nánast allan tímann. Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimamenn með 29 stigum gegn 26. Þegar í hálfleik var komið var staðan svipuð, 56-52 fyrir Keflavík.

 

Þórsarar voru svo sterkari í upphafi seinni hálfleiksins. Eftir þrjá leikhluta leiða þeir leikinn, 72-75. Í lokaleikhlutanum ná þeir svo að slíta sig aðeins frá heimamönnum og ná meðal annars í mesta forskot leiksins á tímabili, 10 stig. Keflavík nær þó að kroppa í bakkann undir lok leiksins. Allt kemur þó fyrir ekki fyrir heimamenn, sem þurftu að lokum að sætta sig við 2 stiga tap, 98-100.

 

Bestur í liði Þórs var ungstirnið Hilmar Smári Henningsson, en hann skilaði 18 stigum (7/10 í skotum), 8 fráköstum og 3 stoðsendingum á þeim 34 mínútum sem hann spilaði.

 

Sigurinn sá þriðji sem að Þórsliðið nær í deildinni í vetur, en annar var einmitt stórsigur þeirra í fyrri umferðinni gegn Keflavík á Akureyri.

 

Sigurinn einnig nokkuð sögulegur fyrir Þór, því hann var sá fyrsti sem að liðið vinnur í Keflavík í deildinni. Næst höfðu þeir komist sigri áður þann 5. febrúar árið 1995, en þá töpuðu þeir með aðeins 3 stigum, 95-92. Í heildina höfðu þeir leikið 21 leik í Keflavík áður og tapað fyrir þennan sigur í kvöld.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn