Það var alvöru toppslagur í Hertz-hellinum í kvöld er særðir Vesturbæingar komu í heimsókn. Finnur Freyr hefur tæplega þurft að eggja sína menn mikið eftir þungt tap í bikarúrslitaleiknum en KR-ingar þurftu að koma sér aftur á sigurbraut án Pavels og Jóns Arnórs í þessum leik. ÍR-ingar töpuðu fyrri leiknum með 10 stiga mun en fyrst og fremst var barist um stigin tvö sem í boðu voru.

 

 

Spádómskúlan: Þar sem spádómskúlan týndist í partýi á Króknum um helgina kynnir karfan.is til leiks nýja kúlu. Í henni sést greinilega að Jón Arnór og Pavel sitja á trébekk í síamstvíbura-spennutreyju. Það þýðir að ÍR-ingar munu sigra leikinn 80-75. Góður sigur en dugir ekki í innbyrðis viðureignum liðanna.

 

Þáttaskil

Gestirnir voru lítið eitt skárri í fyrsta leikhlutanum. Vörn þeirra var öflug og stöðvaði allt flæði hjá heimamönnum. ÍR-ingar bættu um betur með því að hreinlega rétta gestunum boltann ítrekað og mikil klaufabárðabragur á þeim. KR-ingar voru ekkert mikið betri en voru þó 17-22 yfir eftir einn leikhluta.

 

Áhorfendur fengu meira af því sama í öðrum leikhluta þar sem bæði lið áttu ekki beint sinn besta dag – einkum sóknarlega. Stemmningin var hins vegar frábær í húsinu eins og hefur verið í vetur svo gæði leiksins skipta ekki öllu máli. KR-ingar náðu að hanga á forskotinu þar til Sæsi jafnaði með fallegum þristi úr horninu í blálok fyrri hálfleiks, staðan 41-41. Í töpuðum boltum var staðan hins vegar 13-8!

 

Það var allt annað að sjá varnarleik heimamanna í þriðja leikhluta. Þeir skiptu mikið betur á skrínum, lokuðu betur á bakdyrasendingar og þriggja stiga skot. Gestirnir virtust ekki vera alveg tilbúnir í seinni hálfleikinn og fljótlega voru það þeir sem byrjuðu í ríkari mæli að gefa boltann frá sér. Ryan Taylor hafði verið beittasta vopn ÍR-inga til þessa og varð bara enn beittari eftir því sem á leið. Heimamenn sigu fram úr og Finnur tók leikhlé í stöðunni 61-50. Það hafði jákvæð áhrif á gestina og munurinn aðeins 6 stig, 63-57 fyrir lokaátökin.

 

Brandon Penn, nýi bandaríski leikmaður KR, getur alveg skotið boltanum og minnkaði muninn í 63-62 með þristi snemma í fjórða leihlutanum. Þarna var eins og að heimamenn væru búnir að klúðra sínum málum allsvakalega. En eins og Matti hefur talað um er ÍR-liðið hreinlega tilbúið í alvöru slagi og svöruðu með svakalegu áhlaupi. Það samanstóð einkum af þristi frá Danero og Ryan og einhverju SVAKALEGASTA varða skoti sem sést hefur! Það verður sýnt u.þ.b. 7 sinnum annað kvöld! Munurinn rauk aftur upp í 9 stig, 73-64. Nóg var eftir af leiknum en KR-ingar náðu aldrei að svara þessu almennilega. Danero tryggði sigurinn þegar rúmar 2 mínútur voru eftir með þristi, staðan þá 82-69. Ungu leikmennirnir hjá KR luku leik fyrir gestina og gerðu vel, niðurstaðan varð 9 stiga sigur ÍR, 87-78.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Tapaðir boltar voru nokkuð áberandi í kvöld. Það er athyglivert að sú tölfræði snerist alveg við í seinni hálfleik en leikar enduðu 16-18 ÍR-ingum í vil, ef svo má orða það. Það skýrist sennilega með bættri vörn heimamanna í seinni hálfleik.

 

Hetja leiksins

Ryan Taylor er augljóslega maður leiksins. Þessi guðdómlegi leikmaður skoraði 34 stig, tók 9 fráköst og varði körfuna af harðfylgi. Þetta er alger draumaleikmaður – hann er alvöru liðsmaður og það væri hægt að ljúga því að mér að hann væri alinn upp í Breiðholtinu!

 

Kjarninn

Þeir sem hafa enn ekki náð því þá er ÍR-liðið alvöru lið…enda einir á toppi deildarinnar! Það er vissulega óvænt en hver elskar ekki óvænta hluti í íþróttum? Hvenær er næsta umferð?

 

KR-ingar byrjuðu eins og lið sem er svolítið eins og sært dýr. Mættu ákveðnir til leiks og vildu auðvitað fá smá skammt af sigurtilfinningu eftir tapið í bikarnum. En þrátt fyrir breiðan og sterkan hóp Vesturbæinga má kannski segja að meiðsladraugurinn hafi verið áþreifanlegur í þessum leik. Vonandi komast menn á ról sem allra fyrst – við viljum sjá liðin etja kappi með alla sína helstu hesta inn á vellinum.

 

Athygliverðir punktar:

  • Ekki er annað hægt en að minnast á Gettó-ana enn og aftur. Þeir skipta máli og stemmningin var æðisleg. Vesturbæingar mættu líka vel en höfðu kannski ekki miklu að fagna að þessu sinni.
  • Nýja spádómskúlan er yfirgengilega montin! Ef svo fram heldur sem horfir verður hún til sölu á milljón kall eða svo á bland.is eftir tímabilið.

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 

 

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson 

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson