Topplið KR-inga heimsótti Hertz-hellinn og ÍR-stelpurnar þar í kvöld. Heimaliðið var heldur lemstrað fyrir leikinn, en þær vantaði tvo byrjunarliðsmenn sína ásamt mínútuhæsta leikmanninum af bekknum. KR komu með fullu forsi inn í leikinn þrátt fyrir að hafa aðeins 10 leikmenn á skýrslu og gerðu fljótlega úti um leikinn. Hann fór að lokum 28-90.
 

Gangur leiksins

Heimaliðið hóf leikinn heldur illa en þær gátu ekki hitt úr skoti utan af velli á fyrstu fjórum mínútum leiksins. KR-ingar upplifðu enga slíka lægð og komu stöðunni upp í 0-15 áður en Kristín Rós Sigurðardóttir opnaði loks leikinn fyrir ÍR-inga með þarfri tveggja stiga körfu. Þrátt fyrir það héldu Vesturbæjarstelpurnar áfram að rúlla og með stífri vörn gátu þær blásið muninn upp í 20 stig áður en leikhlutinn var úti. Staðan var því 6-26 eftir fyrstu 10 mínúturnar. KR héldu áfram að spila þétta vörn og næsta leikhluta lauk nokkuð svipað, 7-28 og staðan í hálfleik orðin 13-54.

Vörn gestanna gekk að miklu leyti út á að treysta framherjunum fyrir því að taka fráköstin og keyra í hraðaupphlaup þar sem ein til tvær KR-stelpur voru komnar fram strax og vörnin hafði tryggt sér boltann (og jafnvel áður en hún hafði gert það). ÍR-ingar pössuðu ekki vel upp á boltann í leiknum og KR-ingar refsuðu grimmt fyrir það. Þær svartklæddu settu líka upp í svæðisvörn eins og þær höfðu áður gert í leikjum gegn Hamri og Ármanni og á tímum virtist það vera eina leiðin fyrir ÍR til að ná góðu skoti af. Þetta sást greinilega í því að Bryndís Gunnlaugsdóttir fékk nokkur galopin skot á lyklinum gegn svæðinu sem hún setti niður af öryggi. 

Það að Breiðhyltingar gátu skorað öðru hvoru gegn KR-stelpunum kom þó ekki í veg fyrir að þær virtust ekkert getað hamið sókn gestanna sem skilaði sér í stöðunni 21-83 þegar lokafjórðungurinn hófst. Síðasti leikhlutinn var mjög sérkennilegur, en hvorugt liðið gat skorað fyrstu fjórar mínúturnar og liðin skildu jöfn eftir leikhlutann með 7 skoruð stig hvor. Lokastaðan varð því 28-90, KR í vil.
 

Þáttaskil

Það er í raun ekki hægt að tala um nein eiginleg þáttaskil, KR völtuðu yfir ÍR og það var lítið sem lemstrað heimaliðið gat gert.
 

Góðar frammistöður í leiknum

Alexandra Petersen stóð sig vel fyrir KR í kvöld, en hún skilaði 16 stigum, 9 fráköstum, 5 stoðsendingum og 4 stolnum boltum á tæpum 23 mínútum. Hún lauk leiknum með 29 í framlag. Tvær aðrar í KR voru sömuleiðis með 4 stolna bolta og skoruðu báðar 15 stig, flest þeirra úr hraðaupphlaupum; Ástrós Lena Ægisdóttir og Perla Jóhannsdóttir. Eygló Kristín Óskarsdóttir átti fínan leik líka en hún skoraði 16 stig og tók 10 fráköst ásamt því að vera með +46 í +/- tölfræðinni.
 

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR mættu fantagóðri vörn í kvöld og tölfræðin bakkar það upp. Þær töpuðu 32 boltum í leiknum (13 í fyrsta leikhlutanum einum og sér) og heildarskotnýting þeirra utan af velli var aðeins 16%. KR-ingar stálu 19 boltum í leiknum og þrátt fyrir að það hafi ekki komið fram í tölfræðinni (það gleymist því miður af og til að merkja við hraðaupphlaup) þá fengu þær eflaust 40 stig úr hraðaupphlaupum í leiknum.
 

Kjarninn

KR eru þá enn ósigraðar með 16 sigra í 16 leikjum og sitja þægilega á toppi deildarinnar með næsta lið, Fjölni, 5 sigrum á eftir þeim. ÍR stúlkur áttu augljóslega slæmt kvöld og vantaði lykilleikmenn, en þær þurfa að vera duglegari að nýta sér veikleika annarra liða og passa betur upp á boltann. Þær sitja sem fastast í 5. sæti deildarinnar og þurfa að eiga betri leiki en þetta ef að þær vilja komast upp fyrir Grindavík sem er í 4. sæti.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bára Dröfn Kristinsdóttir

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir