Bikarmeistarar Tindastóls komu í heimsókn í Höllina og þurftu að hafa meira fyrir sigrinum en gegn K.R. í bikarúrslitunum.  Það voru þó ekki einu bikarmeistararnir á fjölum Hallarinnar því nokkrir úr bikarmeistaraliði drengjaflokks Þórs voru í Þórsliðinu eins og áður í vetur.

 

Bikarmeistarar Tindastóls komu norður yfir heiðina til að spila við Þórsara.  Þeim var óskað til hamingju en svo átti sú hamingja að enda.  Það var jafnræði með liðunum fyrstu mínúturnar á meðan leikmenn stilltu miðið og sendingarnar af.  Tindastólsmenn tóku við sér eftir 3 mínútur og fóru að setja boltann þangað sem hann átti að fara hvort heldur skot eða sendingar á meðan heimamenn voru enn að senda boltann út í loftið og hittu illa.  Munurinn jókst hægt og bítandi út leikhlutann og endaði leikhlutinn í 14 – 24 fyrir gestina. 

 

Annar leikhluti hófst með svipuðum hætti og sá fyrsti endaði.  Tindastóll hélt áfram að hitta á körfuna og samherja á meðan Þórsarar voru í einhverjum allt öðrum leik.  Munurinn hélt áfram að aukast og í lok annars leikhluta voru Tindastólsmenn komnir með þægilega forystu 30 – 45.  Í þessum leikhluta skoraði Þór 14 stig þar af einungis 4 stig úr opnum leik en 10 af vítalínunni.

 

Það var nokkuð ljóst að heimamenn þurftu að fá eitthvað í leikhlénu til að vakna og gera þennan leik að einhverju öðru en gjöf til bikarmeistaranna.  Eina ljósglætan í fyrri hálfleik var baráttugleði Sindra í vörninni.

 

Í seinni hálfleik mætti nýtt og betra Þórslið inn á fjalirnar í Höllinni og fór að spila körfubolta.  Baráttan í vörninni jókst en 3ja stiga skotin héldu áfram að geiga og skot og sendingar ekki alveg komið í lag.  Skot og sendingar bötnuðu hjá heimamönnum þegar leið á leikhlutann auk þess sem gestirnir hættu að hitta og því dró saman með liðunum.  Þórsarar tóku fyrstu mínútur leikhlutans 12 – 4 og voru á góðri leið með að gera þetta að góðum leik.  Tindastólsmenn tóku sig saman í andlitinu og veittu heimamönnum aftur mótspyrnu og hélst munurinn 7 – 12 stig það sem eftir lifði 3. leikhluta.  Að honum loknum voru Tindastólsmenn yfir 50 – 61.  Þriðji leikhluti hafði hins vegar gefið áhorfendum góð fyrirheit um að betri tímar væru í vændum.

 

Fjórði leikhluti hófst með gífurlegri baráttu Sindra sem skilaði sér í stolnum boltum og skoruðum stigum og 5-0 kafla.  Í stöðunni 57 – 64 var eins og enginn gæti skorað því þannig var staðan í 2 mínútur uns gestirnir fengu víti og brutu ísinn og juku muninn í 9 stig 57 – 66.  Júlíus og Sindri tóku þá aðra rispu og komu muninum niður í 3 stig 63 – 66 en á þessum kafla setti Júlíus niður langþráðan þrist en þristarnir höfðu einhverra hluta vegna ekki verið boðaðir í leikinn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá þá með. 

 

Heimamenn settu einungis niður 4 þriggja stiga skot af 26 á meðan gestirnir settu 8 af 35. 

 

Allt var nú á suðupunkti, bæði hjá leikmönnum og áhorfendum.  Í þessari stöðu, 3 stigum undir mistókst troðsla hjá heimamönnum sem hefði kveikt gott bál.  En í staðinn fyrir að minnka muninn í eitt stig 65 – 66 náðu gestirnir úr Skagafirðinum hraðaupphlaupi og juku muninn í 63 – 68.  Heimamenn voru ekki af baki dottnir og börðust eins og grenjandi ljón lokamínúturnar og náðu aftur að minnka muninn í 3 stig.  Lengra náðu þeir ekki og Tindastólsmenn sigldu sigrinum í höfn 72 – 77 og tóku þau tvö stig sem voru í boði með sér yfir í Skagafjörðinn. 

 

Dómararnir báru full mikla virðingu fyrir bikarmeisturunum en það var ekki það sem réði úrslitum heldur fyrri hálfleikurinn þar sem Tindastóll byggði upp góða forystu sem Þórsarar náðu aldrei að vinna alveg upp þrátt fyrir hetjulega baráttu.  

 

Tindastóll vann Norðurlandsslaginn og sótti mikilvæg stig í toppbaráttuna og náði að rífa sig aðeins frá Njarðvík og er núna í 2. – 4. sæti 4 stigum á undan Njarðvík í því 5.  Þór er enn með 6 stig í 11 og næst neðsta sætinu 2 stigum á eftir Val.

 

Stigahæstu menn voru: 

Hjá Þór, Nino 25 stig, Hilmar 13, Pálmi 9, Sindri 8, Júlíus 7, Ingvi og Hreiðar með sitthvor 4 stigin og Einar með 2.

 

Hjá Tindastól, Antonio 20, Brandon 12, Pétur og Hannes settu 11 hvor, Helgi 10, Friðrik 8, Axel 3 og Helgi Rafn 2.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Sigurður Freyr