Heimamenn í liði Vestra tóku á móti Snæfell í kvöld. Bæði lið léku síðast á föstudag þar sem Snæfell tapaði á móti Breiðablik og Vestri unnu Skallagrím. Leikmenn byrjuðu grimmt en það mátti sjá þreytu í báðum liðum þegar líða fór á leikinn. Að lokum knúðu heimamenn fram sigur 76 – 75. Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson eiga hrós skilið fyrir einkar vel dæmdan leik. Án efa tveir af færustu dómurum landsins. Því miður fáum við ekki alltaf dómgæslu í þessum gæðaflokk í 1. deildinni.

 

Þáttaskil:

 

Bæði lið hittu vel í fyrri hálfleik og unnu sitt hvorn leikhlutann með 7 stigum. Í hálfleik var staðan 47 – 47. Þriðji leikhlutinn var leikhluti heimamanna. En þeir unnu hann 14 – 7 og spiluðu hörku svæðisvörn sem þvingaði gestina í slæm skot og önnur dýr mistök. Vörn leikmanna Vestra og þessi 7 stiga forusta reyndist erfið fyrir gestina. Auk þess byrjuðu Vestramenn fjórða leikhluta vel og náðu að koma þessu í 11 stiga forustu.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Vestri var með betri nýtingu í bæði tveggja og þriggja stiga skotum, auk þess unnu þeir fráköstin 44 – 36. Þar var Nemanja Knezevic öðrum fremri með 24 fráköst.

 

Hetjan:

 

Bæði Nökkvi Harðarson og Nökkvi Már Nökkvason áttu fínan leik. Ekki amalegt að vera með eins og einn Nökkva í liði. Rúnar Þór Ragnarson á hrós skilið fyrir hörku vörn á Nemanja sem er illviðráðanlegur fyrir hvaða varnarmann sem er. Björn Ásgeir Ásgeirsson spilaði að sama skap mjög góða vörn á Christian David Covile sem átti þó fínan leik en var töluvert undir pari. Nebosja Knezevic skilaði 10 stoðsendingum og Ingimar Aron Baldursson átti mjög góðan leik. En maður leiksins er án vafa Nemanja Knezevic sem skoraði 20 stig, reif niður 24 fráköst, var með 5 stoðsendingar, 4 varin skot og 35 í framlag.

 

Kjarninn:

 

Þessi leikur var sannkallaður naglbítur og bæði lið vel að sigri komin. Góð vörn heimamanna í þriðja leikfjórðung og betri byrjun í þeim fjórða gerði gestunum erfitt fyrir. Hólmarar eiga hrós skilið fyrir að mæta rétt stemmdir í leikinn og gefa áhorfendum á Jakanum leik sem var hverrar krónu virði.

 

Tölfræði leiksins