Í kvöld mættust Hamar og Vestri í 1. deild karla í Frystikistunni í Hveragerði. Fyrir leikinn voru Vestramenn í þriðja sæti með tveimur fleiri stig en Hamar sem voru í fimmta sæti. Það var ofboðslegur jólasteiksbragur yfir leiknum, en hálfleiksskorið var 32-36 og hvorugt liðið að sýna miklar listir. Rosalegur lokakafli bætti upp fyrir ömurlegan fyrri hálfleik og Hamarsmenn náðu eins stigs sigri í framlengingu: 98-97.
 

Leikurinn var gífurlega ljótur framan af, en bæði lið hittu hörmulega úr skotunum sínum og voru að tapa mikið af boltum. Engin í Hamri virtist geta dekkað stóran mann Vestra, Nemanja Knezevic, sem sást á því að Hamarsmenn voru fljótlega lentir í bullandi villuvandræðum. Fyrsta leikhlutanum lauk 16-19, gestunum í vil. Lítið breyttist í öðrum leikhlutanum en það var áfram léleg skotnýting hjá báðum liðum og sem dæmi þá hittu hamarsmenn ekki úr þriggja stiga skoti í fyrri hálfleiknum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Staðan í hálfleik var 32-36

Í seinni hálfleik fóru talsvert fleiri þristar að detta hjá báðum liðum þó að hvorugt lið gat skilið sig almennilega frá hinu. Þessi leikhluti var sá lang stærsti, en liðin skoruðu í honum nokkurn veginn jafn mikið og í öllum fyrri hálfleiknum. Áfram héldu villuvandræði Hvergerðinga í, en þeir voru mikið að spila vörn með höndunum og gátu ekki haldið leikmönnum Vestra fyrir framan sig lengstan hlutann af leiknum. Þegar líða tók á fjórða leikhluta virtist eins og það kviknaði á báðum liðum, en þau fóru að skiptast á körfum og leikurinn varð skyndilega jafn og spennandi. Þegar stutt var eftir komust heimamenn þremur stigum yfir og staðan ekki góð fyrir gestina. Á lokasekúndunni gat Nemanja hins vegar tekið erfiðan þrist og jafnaði leikinn þannig að framlengja þurfti um 5 mínútur.

Í framlengingunni voru liðin áfram jöfn en óheppilegt klúður hjá Vestra á lokasekúndunni gerði ólíklegan Smára Hrafnsson að hetju Hamars með vinstri handar sniðskoti til að koma heimamönnum einu stigi yfir. Nebojsa Knezevic fékk lokaskotið en það geigaði því miður og lokastaðan varð því 98-97, Hamri í vil.
 

Þáttaskil

Leikurinn réðst á nokkrum mikilvægum atvikum á lokakafla leiksins; Hamarsmenn fóru að setja skotin undir lokin og voru síðan duglegir að refsa Vestra fyrir mistökin sín.

Tölfræðin lýgur ekki

Þrátt fyrir að Vestri hafi unnið frákastabaráttuna með 14 fráköstum og hitt betur úr skotunum utan af velli (45% vs. 42%) þá var léleg vítanýting og tapaðir boltar það sem gerðu út af við leikinn. Gestirnir frá Ísafirði klikkuðu á fleiri vítaskotum en Hamarsmenn fengu á heildina (12 klikk hjá Vestra, 11 víti hjá Hamri) og Vestramenn töpuðu 11 fleiri boltum en heimamennirnir.

Maður kvöldsins

Það erfitt að segja til um hver hafi raunverulega unnið leikinn í kvöld fyrir Hamar, en Suðurnesjadrengurinn Jón Arnór Sverrisson átti tvímælalaust mikinn þátt í því, en hann náði þeirri áhugaverðu tölfræði að ná tvöfaldri tvennu án þess að skora 10 stig, en hann tók 12 fráköst, átti 12 stoðsendingar og skoraði 7 stig og stal 7 boltum. Hann var framlagshæstur sinna manna með 24 framlagsstig.
 

Kjarninn

Vestramenn eru ennþá fyrir ofan Hamar í deildinni en nú eru liðin jöfn að stigum. Það mun skipta máli hvernig næsti leikur milli þeirra fer en ljóst er að bæði lið eiga að spila betur en þetta og gott að hafa svona jólasteikurleik sem var samt jafn og spennandi.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson