Njarðvíkingar blása til tvíhöfða í Domino´s-deildinni í kvöld í Ljónagryfjunni. Fyrri leikur kvöldsins er kl. 18:00 þegar Njarðvík og Stjarnan mætast í Domino´s-deild kvenna. Þetta er fyrsti leikurinn sem Ragnar Halldór Ragnarsson stýrir hjá Njarðvík á tímabilinu en hann tók við þjálfun Njarðvíkurkvenna á dögunum eftir að stjórn KKD UMFN og Hallgrímur Brynjólfsson ákváðu að slíta samstarfi sínu. Njarðvíkingar hafa tapað öllum deildarleikjum sínum til þessa og mun Ragnar freistast til að koma þeim á sigurbraut í kvöld.

Þá mætast Njarðvík og topplið ÍR kl. 20:15 í Domino´s-deild karla en ÍR vann fyrri deildarleik liðanna með þriggja stiga mun og því von á miklum slag. ÍR er á toppi deildarinnar með 22 stig en Njarðvíkingar í 5. sæti með 16 stig.

Báðir leikirnir í Njarðvík verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld.

Tveir aðrir leikir eru í Domino´s-deild kvenna í kvöld en kl. 19:15 mætast topplið Vals og Skallagrímur að Hlíðarenda og á sama tíma í Kópavogi mætast Breiðablik og Keflavík.

Allir leikir dagsins