Það verður hörku slagur í TM-Höllinni í kvöld þegar Keflavík tekur á móti Haukum í lokaleik 15. umferðar Domino´s-deildar karla. Viðureign liðanna hefst kl. 20:00 og verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport.

Haukar eru um þessar mundir í 4. sæti deildarinnar með 20 stig en Keflavík í 8. sæti með 14 stig. Sigur hjá Haukum í kvöld þéttir enn frekar raðirnar í fjórum efstu sætum deildarinnar en sigur hjá Keflavík skýtur þeim ofar í töfluna með Njarðvík og Grindavík sem hafa 16 stig.

Fyrri leikur liðanna fór 87-90 fyrir Keflavík í Schenkerhöllinni í október en þá var það Reggie Dupree sem fór mikinn með 29 stig í liði Keflavíkur.

Þá eru tveir leikir í 1. deild karla en Breiðablik og Snæfell eigast við kl. 18.30 í Smáranum og Vestri tekur á móti Skallagrím á Ísafirði kl. 19:15.

Þór Akureyri fær svo ÍR í heimsókn í 1. deild kvenna kl. 19:30 og í 2. deild karla mætast Reynir Sandgerði og Ármann kl. 19:00 í íþróttamiðstöðinni í Sandgerði.

Staðan í Domino´s-deild karla

Mynd/ Benóný Þórhallsson