Breiðablik hafa bætt við sig leikmönnum uppá síðkastið í baráttunni um sæti í úrvalsdeild á næsta ári. Liðið situr í öðru sæti 1. deildar karla og bættu við sig Erlendi Ágústi Stefánssyni og Christopher Woods á dögunum.
Leifur Steinn Arnason sem leikið hefur með Breiðablik síðustu tímabil hefur hinsvegar sagt skilið við liðið. Hans síðasti leikur með liðinu var gegn Snæfell þann 26. janúar. Í samtali við Karfan.is vildi Leifur ekki tjá sig um hvers vegna hann væri hættur hjá félaginu en staðfesti að hann myndi ekki leika áfram með Breiðablik.
Leifur sem einnig hefur leikið með ÍR og Val síðustu árin var með 3 stig og 4,7 fráköst að meðaltali í þeim 16 leikjum sem hann spilaði með félaginu á tímabilinu. Hann hefur leikið að meðaltali um 17 mínútur í leik og því ljóst að hann skilur eftir hlutverk í liðinu.
Þegar Karfan.is náði tali af Leifi sagðist hann vera langt frá því að setja skónna á hilluna. „Ég ætla að spila í að minnst kosti 10 ár í viðbót.“ sagði Leifur.
Samkvæmt heimasíðu KKÍ hefur Leifur nú fengið leikheimild með Gnúpverjum og mun því væntanlega spila þar út tímabilið. Breiðablik og Gnúpverjar mættust einmitt síðasta mánudag þar sem Blikar höfðu sigur.