Stjörnumenn mættu í DHL höllina í kvöld staðráðnir í því að sækja gull í greipar KR-inga. Stjarnan vann síðasta leik liðanna í deildinni svo að KR höfðu harma að hefna. Í síðustu umferð sigruðu Stjörnumenn lánlausa Hattarmenn á heimavelli en KR gerði góða ferð á suðurnesin þar sem þeir sigruðu Njarðvíkinga í spennandi leik.

 

Eftir jafnan leik framan af þar sem staðan var 14-14 eftir fyrsta leikhluta tóku KR-ingar við sér. Þeir breyttu stöðunni úr 27-24 í 48-28. Stjörnumenn svöruðu með 20-6 áhlaupi og spennandi lokafjórðungur framundan. Það reyndist þó ekki alveg vera tilfellið þar sem KR sýndu reynslu sína og styrk og lönduðu nokkuð öruggum sigri að endingu. 85 – 70. KR eru þá með 20 stig á toppi deildarinnar ásamt Haukum og ÍR á meðan að Stjarnan situr í 8. sæti með 12 stig.

 

Atkvæðamestur KR-inga í dag var Kristófer Acox sem var með 28 stig, 12 fráköst og 3 stolna bolta en hjá gestunum úr Garðabænum var Collin Pryor með 22 stig og 10 fráköst.

 

Kjarninn

KR voru eiginlega númeri of stórir í kvöld fyrir Stjörnumenn sem áttu þó sjálfir ágætis leik. Stjarnan reyndi að gera leikinn svolítið gruggugan með sterkri vörn en vesturbæingar geta alveg spilað þann leik líka. Breiddin hjá KR gerir það að verkum að þeir geta spilað á nokkurnveginn fullu gasi allan leikinn sem fáir geta leikið eftir. Það sást að KR liðið er óðum að nálgast sinn fyrri styrk, Pavel leit vel út í dag og Jón er allur að koma til þrátt fyrir að skotið sé ekki alveg mætt á svæðið. Það verður gaman að fylgjast með þeim á næstu vikum.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Þetta var jafn leikur á flestum hliðum tölfræðinnar, með KR rétt á undan í flestum flokkum. Unnu frákastabaráttuna 49-45, gáfu aðeins fleiri stoðsendingar, 19 gegn 15 og töpuðu örlítið færri boltum, 13 gegn 14.

Munurinn lá að mestu leyti í skotnýtingunni en KR skutu talsvert betur í kvöld heldur en garðbæingar. Stjarnan skaut 31% utan af velli en KR 46%. Þá skoruðu KR 46 stig í teignum gegn 36 stigum Stjörnunnar.

 

Maður leiksins

Það er bara einn maður sem kemur til greina í kvöld sem maður leiksins og það er KR-ingurinn Kristófer Acox. Kristófer átti algerlega stórkostlegan leik í kvöld og var óstöðvandi með baráttu sinni, krafti og gæðum. Hann lauk leik með línuna 28 stig, 12 fráköst (5 í sókn) og 3 stolna bolta, hann skaut næstum óaðfinnanlega, var 12 af 13 utan af velli og 4 af 5 á vítalínunni. Kristófer kórónaði svo sinn leik með trollatroðslu í lok leiks.

Kristófer og Pavel voru að vinna einstaklega einstaklega vel saman í vaggi og veltu, þegar besti sendingamaður deildarinnar, sem er þar að auki 2 metrar á hæð fær ítrekaðar hindranir frá besta skrínara og rúllara deildarinnar þá gerast góðir hlutir.

 

Óíþróttamannslegar villur

Undirritaður er búinn að fara á marga leiki í vetur og er samt sem áður engu nær þegar að kemur að nýju áherslunum varðandi óíþróttamannslegar villur. Í kvöld fékk Darri eina slíka í 5 á 5 bolta eftir að hafa lent í smá klafsi við Collin Pryor, alls ekki harðasta villan upp við körfuna í kvöld og ekki sú eina ,,aftan frá”.

Það er verulega leiðinlegt að sjá ekki meira samræmi í þessu og best væri að mati undirritaðs að einfaldlega hætt að dæma óíþróttamannslegar villur í 5 á 5 bolta þar sem er ekki um ljót brot að ræða. Sérstaklega þegar að línan er ekki augljósari en nú er.

 

Tölfræði leiksins:

 

Umfjöllun: Sigurður Orri Kristjánsson

 

Viðtöl: