KR slapp með 69-73 sigur úr Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld þegar Domino´s-deild karla hóf göngu sína á ný eftir jólafrí. Um hnífjafnan leik var að ræða þó nokkur hátíðaþefur hafi verið af frammistöðu allra þeirra sem á parketinu voru og þar voru dómarar leiksins ekki undanskildir. Fáir eru betri en röndóttir í þessum jöfnu leikjum og sýndu KR-ingar enn eina ferðina hve vel þeir geta lokað ljótu og erfiðu leikjunum. Með sigrinum í kvöld hefur KR þrívegis lagt Njarðvík í vetur, tvisvar í deild og einu sinni í bikarnum og því óhætt að segja að þeir hafi Njarðvíkinga í vasanum þetta tímabilið.

 

Kristófer Acox leiddi KR í kvöld með 21 stig og 8 fráköst og þar af voru nokkrar stórglæsilegar troðslur hjá landsliðsmanninum en næstur honum var Jalen Jenkins með 14 stig. Hjá Njarðvík var Terrell Vinson stigahæstur með 30 stig og 14 fráköst og þeir Maciek Baginski og Logi Gunnarsson bættu báðir við 12 stigum. Kristinn Pálsson lék sinn fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir uppeldisklúbbinn og skilaði 5 stigum (hans fyrstu úrvalsdeildarstig), 7 fráköstum og 3 stoðsendingum.

 

Gangur leiksins

 

Heimamenn byrjuðu 6-0 en KR svaraði þá með 2-9 áhlaupi en eftir þetta gengu liðin nánast hnífjöfn allt til leiksloka. Nokkuð var um mistök á báða bóga, heimamenn í Njarðvík með 19 tapaða bolta og svo 17% þriggja stiga nýting gestanna. Með öðrum orðum; þetta var ekkert konfekt en það var barátta og svo mikil að Jón Arnór Stefánsson sem var mættur aftur á parketið varð frá að hverfa eftir högg sem skildi eftir sig sár á hökunni sem sauma varð fyrir. Jón skilaði tæpum 18 mínútum í kvöld og skoraði eitt stig.

 

KR lét ekki deigan síga þrátt fyrir brotthvarf Jóns úr leiknum en höfðu heilladísirnar með sér þegar þristur frá Brynjari Þór rykhreinsaði loftfestingarnar (s.s. fór út af leikvelli) en slapp síðan aftur ofan í körfuna og kom KR í 46-53 og heimamenn vitaskuld ósáttir með að þetta hafi farið fram hjá dómurum leiksins. Sekúndum síðar fá Njarðvíkingar dæmt á sig tæknivíti fyrir óhófleg mótmæli en þeim fannst engin lína í villudómum kvöldsins þegar kom að óíþróttamannslegum villum sem voru dæmdar nokkuð ólínulega í hraðaupphlaupum liðanna. Njarðvík lenti 60-68 undir en tókst með tveimur þristum að minnka muninn í 66-68 þegar 19 sekúndur lifðu leiks. Skotréttur beggja megin og úr varð að KR hafði yfirburðastöðu með að láta heimamenn senda sig á vítalínuna uns lokaflautið gall. Lokatölur 69-73.

 

Það er nánast að vont að velja mann leiksins eftir svona brambolt en Kristófer Acox var auðvitað drjúgur í röðum gestanna á báðum endum vallarins. 19 tapaðir boltar hjá heimamönnum er of mikið gegn liði eins og KR sem refsar við hvert tækifæri.

 

KR á toppnum með 18 stig eins og ÍR eftir glímuna í kvöld en við eigum vafalaust eftir að sjá meiri gæði hjá báðum liðum og dómurum strax í næstu umferð, það var of mikill jólaþefur af þessu í kvöld.

 

Tölfræði leiksins

 

 

Viðtöl: