Finnur Freyr hefur litið bjartari daga með meiðslum hrjáð KR-liðið.

 

Hver er staðan á Jóni Arnóri og Pavel, nú voru þeir ekki með í kvöld?

Þeir eru báðir meiddir. Pavel meiddist náttúrulega snemma í bikarúrslitaleiknum og Jón fékk í bakið í gærmorgun. Vonandi er þetta ekkert alvarlegt en það liggur ekki ljóst fyrir á þessari stundu hversu lengi þeir verða frá.

 

Þið hljótið að hafa mætt alveg ágætlega gíraðir í þennan leik og ætlað að svara fyrir bikartapið?

Maður svarar þannig séð ekkert fyrir það í þessum leik…en mér fannst við gera suma hluti vel í kvöld en mér fannst við alltof brothættir og þegar við lendum í mótlæti þá gerum við alltof mikið af mistökum. Við duttum svolítið niður í skelina. Við komum flatir út í seinni hálfleikinn, veit ekki hvað skýrir það, missum þau litlu undirtök sem við vorum með í fyrri hálfleik og þeir gengu á lagið. Svo réðum við náttúrulega ekkert við Ryan, einkum í seinni hálfleik, hann var að slátra okkur þarna undir körfunni.

 

Mér fannst bæði lið gera ansi mikið af mistökum, ekki síst í fyrri hálfleik, og þetta var næstum keppni í því hvort liðið myndi gera meira af mistökum?

Jájá, við vorum að taka smá sénsa og það gekk ágætlega stundum en stundum létum við brenna okkur illilega og gáfum of marga opna þrista í svona hröðum leik. Við gerðum okkur seka um lélegar sendingar og lélegar ákvarðanir og eiginlega hvað sem nefna má. Ég er auðvitað ósáttur með það.

 

Ég þykist hafa séð það í þessum leik að öll þessi meiðsli í herbúðum ykkar eru farin að taka sinn toll. Það er ekki alltaf áberandi þó einhvern einn leikmann eða svo vanti í KR-liðið en mátti koma auga á skörðin í dag. Ungu leikmennirnir náðu ekki að fylla alveg upp í þau í kvöld.

Já…við höfum verið að spila án Pavels og Jóns meiri hluta tímabilsins, nú hafa þeir verið að æfa með okkur og komið okkur í gírinn en svo missum við þá aftur og auðvitað er það áfall. Hún er fyndin þessi umræða alltaf að það eigi ekki að skipta nokkru máli hjá okkur sama hvað. En taktu leikstjórnandann og besta leikmanninn úr öðrum liðum og þá myndu þau auðvitað veikjast verulega. Miðað við það þá fannst mér við berjast vel í kvöld og höfum gert það í allan vetur í raun. En það breytir því svo sem ekki að við erum bara með ákveðinn mannskap hverju sinni og frammstaðan var bara ekki nógu góð.