Ármenningar fengu topplið KR í heimsókn í kvöld. Leikurinn varð því miður ekki mjög spennandi en gestirnir unnu leikinn örugglega 44-89.
 

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og spiluðu stífa vörn á Ármann sem pössuðu ekki nægilega vel upp á boltann, en þær töpuðu sjö boltum á fyrstu 10 mínútum leiksins. Eftir 8 mínútur var staðan orðin 5-24 og þremur úr byrjunarliði KR var skipt út af. Það dróg þó ekki mikið úr skorinu og staðan var 7-30 eftir fyrsta leikhlutann. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, setti fljótlega upp svæðisvörn líkt og í leiknum seinasta miðvikudag á móti Hamri. Ármannsstelpunum gekk þó ágætlega að brjóta svæðisvörnina og Kristín Alda, miðherji Ármanns, fór í nokkur skipti beint fram hjá miðherja KR, Eygló Kristínu. Heimamenn spiluðu betur í þessum leikhluta og skoruðu 14 stig gegn 24 stigum KR-inga svo staðan í hálfleik var 21-54.

KR-ingar mættu hressar úr hálfleiks hléinu og þjörmuðu að Ármenningum sem hittu illa í leikhlutanum og uppskáru aðein 9 stig gegn 22 stigum Vesturbæinga. Gestirnir voru að rúlla mjög vel á mannskapnum sínum og gátu keyrt í bakið á Ármanni trekk í trekk og refsuðu þeim reglulega með hraðaupphlaupum, en KR skoruðu 28 stig úr hraðaupphlaupum í leiknum. Kristínarnar í Ármanni áttu góðan lokafjórðung og skoruðu sitt hvor 6 stigin í eina leikhlutanum sem Ármann tókst að vinna í leiknum, 14-13. Leiknum lauk eins og áður sagði 44-89, KR í vil.
 

Afgerandi frammistöður kvöldsins

Besti leikmaður vallarins í kvöld var Alexandra "Lexi" Petersen, en hún leiddi liðið sitt af öryggi og skapaði heilmörg tækifæri fyrir liðsfélaga sína í sókninni. Hún skoraði 13 stig, tók 11 fráköst, gaf 7 stoðsendingar, stal 2 boltum og var með 27 í framlag, hæst allra í leiknum. Þar að auki var hún með bestu plús/mínus tölfræði leiksins (hversu mikið eða lítið stigamunur leiksins breytist þegar leikmaður er inni á vellinum) eða +36. Næst á eftir henni var Ástrós Lena Ægisdóttir, en hún skoraði 23 stig (mörg hver sem Lexi skapaði fyrir hana), var með 23 í framlag og plús/mínus tölfræði hennar var +35. Góður leikur hjá þeim báðum.
 

Stóru stelpurnar flottar

Báðir miðherjar liðanna í kvöld stóðu sig vel í kvöld, þær Kristín Alda Jörgensdóttir og Eygló Kristín Óskarsdóttir. Eygló, 195 cm miðherji KR, skoraði 10 stig, tók 14 fráköst, varði 5 skot og var með 24 í framlag. Kristín Alda, sem er reyndar skráð sem bakvörður hjá Ármanni á síðu KKÍ, var stigahæst, frákastahæst (reyndar jöfn að fráköstum við Kristínu Maríu Matthíasdóttur), blokkhæst og framlagshæst í sínu liði. Hún skoraði 14 stig, tók 11 fráköst, varði 2 skot og var með 15 í framlag. Til gamans má geta að þessar ungu og efnilegu stelpur verða báðar 17 ára á þessu ári og körfuboltaferill þeirra verður vonandi langur og farsæll.
 

Kjarninn

Úrslitin í leikjum sem þessum þurfa ekki endilega að koma á óvart þegar ósigrað topplið deildarinnar mætir botnliðinu. Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, nýtti leikinn til að slípa svæðisvörn liðsins og til að gefa mínútulægstu leikmönnum sínum meiri leikreynslu, en þrjár úr byrjunarliði KR spiluðu t.a.m. rétt rúmar 8 mínútur í leiknum, minna en allir aðrir leikmenn liðsins. Ármann áttu fínan leik gegn besta liði deildarinnar og geta tekið ýmislegt jákvætt frá honum, m.a. það að passa vel upp á boltann og góða boltahreyfingu á móti svæðisvörn.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

 

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson