Fyrsti leikur Snæfells og Keflavíkur eftir jólafrí var í leikinn í Stykkishólmi í dag þar sem gestirnir sigruðu í stórundarlegum körfuboltaleik 53-80 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 41-31 Snæfell í vil.

 

Hólmarar fögnuðu því að vera með 12 manna hóp í fyrsta skipti í vetur og þær Sara Diljá Sigurðardóttir sem er meidd á ökkla og María Björnsdóttir sem ekkert hefur leikið eða unnið síðan hún fékk höfðuhögg gegn Stjörnunni í október voru fyrir utan hóp.  Gunnhildur Gunnarsdóttir lék sínar fyrstu mínútur eftir barnsburð og Andrea Björt Ólafsdóttir lék einnig sinn fyrsta leik síðan hún sleit liðbönd í ökkla í nóvember.

 

Hjá Keflavík var Emelía Gunnars með spelku og bíður þess að komast í aðgerð vegna krossbanda slita en liðið tefldi fram Emblu Kristínardóttur í sínum fyrsta leik fyrir Keflavík á ný.

 

Bæði lið fóru hálf klaufalega af stað en Keflavík leiddu 4-11 áður en Snæfell náðu að komast yfir  15-13 og leiða fyrsta leikhluta 19-15.  Keflavík komust yfir 19-20 áður en Snæfell skoruðu 10-0 og leiddu 29-20. Snæfell voru grimmari í fyrri hálfleik og voru að gera fína hluti á meðan að Keflavík voru að gera meira af mistökum.  Staðan í hálfleik 41-31 þar sem Kristen McCarthy var stigahæst með 18 stig fyrir Snæfell og næst kom Alda Leif Jónsdóttir.  Hjá Keflavík var Brittanny Dinkins stigahæst með 8 og næst kom Erna Hákonardóttir með 6.

 

Keflavíkurdömur mættu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og skoruðu fyrstu fimm stigin áður en Snæfell náðu að svara fyrir sig og staðan 44-38 en þá tók Brittanny leikinn yfir og smellti fjórum þristum á stuttum tíma auk þess að sprengja vörn Snæfells upp. Keflavík leiddu 53-60 og unnu þriðja leikhlutann 11-29.  Þóranna Kika Hogde-Carr meiddist á hné og vonandi eru það ekki alvarlegt.

 

Það var engu líkara í fjórða leikhluta að Snæfell hefði verið rænt “MOJO” sínu einsog Agent Austin Powers en liðið náði ekki að skora í leikhlutanum þrátt fyrir 16 skottilraunir og eftirleikur Keflavíkur var mjög auðveldur og fóru þær heim með 53-80 sigur.

 

Keflavík eru í öðru sæti í deildinni með 20 stig, fjórum stigum á eftir Valskonum. Snæfell eru hinsvegar í sjöunda sæti með 10 stig og eru með hverjum leiknum að fjarlægjast úrslitakeppnina. Enn er þó von fyrir liðið þar sem þrettán leikir eru eftir af mótinu, en þá þarf margt að breytast hjá liðinu.

 

Hjá Snæfell var Kristen McCarthy stigahæst með 23 stig þar af 18 í fyrri hálfleik og 12 fráköst, en næst kom Alda Leif Jónsdóttir með 6 öll í fyrri hálfleik.

 

Hjá Keflavík var Brittanny Dinkins stigahæst með 27 stig, 7 fráköst og 11 stoðsendingar á 29 mínútum en hún var einungis með 8 stig í fyrri hálfleik, næst kom fyrirliðinn Erna Hákonardóttir með 14 stig.

 

Næsti leikur hjá liðunum er undanúrslit í bikar fimmtudaginn 11. Janúar klukkan 20:00 í Laugardalshöllinni. Næsti deildarleikur hjá Snæfell er gegn Skallagrím á útivelli 17. Janúar en sama dag eru Keflvíkingar í toppslag gegn Valsstúlkum á heimavelli.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Gunnlaugur Smárason

Myndir / Sumarliði Ásgeirsson