Jón Arnór er byrjaður á fullu eftir meiðsli og lokaði leiknum í kvöld. 

 

Mér fannst það vera mjög áberandi frá fyrstu mínútu að þið ætluðuð að vinna þennan leik og ekkert kjaftæði – liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð sem er of mikið fyrir KR.

 

Jújú, það er rétt, við ætluðum að vinna þennan leik og það sást held ég. En við duttum hins vegar svolítið niður eins og við höfum verið að gera undanfarið, það er eitthvað andlegt. Valsmenn gerðu lika vel, voru sniðugir að trappa okkur og fleira, og náðu góðu áhlaupi. En við kláruðum leikinn – þetta var ekkert rosalega fallegt en við erum að bæta okkar leik. Mér fannst margt jákvætt hérna í dag. Við þurfum kannski að sýna aðeins betra ,,show“, auðvitað viljum við valta yfir lið en það er ekkert sjálfgefið. Við þurfum að komast á það stig að geta valtað yfir lið eins og við höfum gert í gegnum tíðina. Við þurfum að taka okkur í gegn svo það sé möguleiki.

 

Mér fannst sigurinn í kvöld byggjast einkum á góðri vörn í kvöld?

 

Já, við spiluðum góða vörn í þessum leik…

 

…sóknarlega hittuð þið hins vegar afar illa – en kannski ekki mikið við því að gera eða hvað?

 

Ja, mér fannst þetta vera svolítið villt hjá okkur í sókninni þegar Valsmenn komu með sitt áhlaup. Mér fannst við kannski geta róað okkur aðeins betur niður, stillt betur upp og framkvæmt hlutina betur. Þeir áttu erfitt með okkur á hálfum velli. Þegar við náðum líka stoppum varnarlega vorum við að keyra upp hraðann eins og við erum vanir, en við hefðum getað stillt bara betur upp.

 

Já, mér fannst ég taka eftir því í þriðja leikhluta að það var eins og þið væruð að drífa ykkur ógurlega við að ganga frá leiknum, kannski drífa ykkur of mikið?

 

Já, þú sást það að við tókum mjög ótímabær skot svona miðað við það hvernig áhlaupið frá þeim var sem var bara nokkuð gott. Þá þurfa menn að vera reyndir og sækja í reynslubankann og stjórna hraðanum betur. Mér finnst við þurfa að gefa okkar stuðningsmönnum betra ,,show“ og verða betri – við viljum vinna í því og rífa upp stemmninguna hérna í KR og gera hana eins góða og hún hefur verið í gegnum árin.

 

Einmitt. Mér fannst þú eiginlega hafa bara ákveðið það hérna í fjórða leikhluta að nú væri nóg komið og tími til kominn að klára leikinn – sem þú og gerðir.

 

Já, ég var bara orðinn svolítið pirraður og reiður út í sjálfan mig, með hangandi haus og lélegur í þriðja leikhluta. Mig langaði til að gera betur og skotin fóru að detta og ég var áræðinn og einbeittur og þá kemur það.

 

Að lokum, hvernig er ástandið á þér – ertu að komast í þokkalegt stand?

 

Ja, ég er búinn að ná nokkrum æfingum! Ég fékk í bakið um daginn og missti af ÍR-leiknum en það er bara partur af því þegar maður er að koma til baka eftir svona langan tíma útaf meiðslum, þá fær maður í bakið eða hnéð og eitthvað svoleiðis og ég er í þeim pakka núna. Ég þarf bara að komast i gegnum það, er í heitu og köldu alla daga og duglegur að teygja. En ég er byrjaður að æfa af krafti og mér líður þannig að þetta fer núna  bara upp á við. 

 

Viðtal / Kári Viðarsson