KR-ingar fengu Hlíðarendapilta í heimsókn í kvöld í 15. umferð Dominos-deildarinnar. Það má segja að Valsmenn sigli frekar lygnan sjó í 9-10. sæti deildarinnar við hlið Þórs Þ. þó stutt sé í báðar áttir. Meiðsli hafa verið að plaga KR-inga mikið í vetur en eru þó í brælunni ofarlega í töflunni. Heimamenn líta sennilega á þennan leik sem gott tækifæri til að koma sér aftur á sigurbraut en Valsmenn hafa sýnt ágæta spilamennsku í vetur svo enginn veit hvernig leikar munu enda, nema helst Spádómskúlan…

 

 

Spádómskúlan: Í nýju finu kúlunni birtist hættulegt rándýr sem sleikir ekki svo djúpt sár á vinstri framloppu. Dýrið er íbyggið og hörkulegt á svip og mænir á rauðleita bráð sem nálgast yfirráðasvæði þess. Þetta þýðir að heimaliðið, KR, mun gleypa bráðina, Valsmenn, án mikilla vandræða og sigra 95-73.

 

Þáttaskil

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að heimamenn ætluðu að sýna sitt rétta andlit í þessum leik og virtust ætla að jarða gestina strax í upphafi. Pavel og Jón voru báðir með í kvöld og engar afsakanir tiltækar. Ágúst, þjálfari Valsmanna, sá sennilega eitthvað í þessa áttina og tók leikhlé eftir 57 sekúndna leik í stöðunni 4-0. Ekki var að sjá að það hafi breytt miklu því heimamenn voru fljótt komnir í 10-0. KR-ingar spiluðu frábæra vörn og að loknum fyrsta leikhluta voru Valsmenn aðeins komnir með 12 stig gegn 20 stigum heimamanna. Valsmenn töpuðu ansi mörgum boltum og það var helst döpur skotnýting KR-inga sem hélt þeim á lífi.

 

Í raun er ekki við miklu að bæta hvað varðar annan leikhluta. Valsmenn héldu áfram að tapa of mörgum boltum gegn afar einbeittri og skipulagðri vörn KR-inga. Að sama skapi skánaði skotnýting KR-inga lítið sem ekkert og stigaskorið ansi lagt í hálfleik eða 37-24.

 

Röndóttir vildu augljóslega sýna sig og sanna og vildu ganga frá þessum leik sem fyrst. En það tefur nú oft fyrir að drífa sig og það sannaðist í seinni hálfleik. KR-ingar voru með hugann svolítið á undan skönkum, töpuðu nokkrum boltum frekar klaufalega og hittu illa. Á það verður þó að minnast að Valsliðið er með hugrakkt hjarta og sterkan karakter og börðu sér leið inn í leikinn. Bracey, Gunnar og Urald náðu að rífa sig aðeins lausa og í gang og náðu að minnka muninn í 41-38. Fyrir lokaleikhlutann voru heimamenn aðeins 5 stigum yfir, 47-42.

 

Valsmenn héldu áfram að berjast enda vel inn í leiknum og minnkuðu muninn í 51-50 snemma í fjórða leikhluta. Þá var komið að Jóni Arnóri að sýna mátt sinn og megin. Hann kom sínum mönnum í 58-50 með þristi þegar um 6 mínútur lifðu leiks og svo í 67-55 með flottu gegnumbroti þegar 3 mínútur voru eftir. Þá var ljóst að heimasigur yrði niðurstaðan. Lokatölur urðu 72-60, í raun frekar öruggur sigur en tölurnar sýna að bæði lið geta frekar hrósað sér fyrir varnarleik en góðan sóknarleik í kvöld.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Valsmenn töpuðu 27 boltum í kvöld sem er auðvitað allt of mikið. Heimamenn töpuðu aðeins 12 boltum. Eins og Ágúst bendir á í viðtali eftir leikinn skýrist það að hluta með afar góðri vörn heimamanna.

 

Bestu leikmenn

Jón Arnór ákvað að í fjórða leikhluta að nú væri tími til kominn að klára leikinn og hann sá um það. Hann lauk leik með 17 stig og 5 fráköst. Brandon Penn er fínn leikmaður og skoraði 20 stig og tók 10 fráköst. Aðrir verða að dæma um hvort hann henti liðinu eða ekki. Kristófer Acox átti svo stórfínan leik líka, skoraði 19 stig og tók 8 fráköst.

 

Hjá Valsmönnum var Urald King atkvæðamestur með 14 stig og 22 fráköst. KR-ingar vörðust honum vel og skotnýtingin var ekki góð.

 

Kjarninn

KR-ingar unnu mikilvægan sigur í kvöld og öruggan þó svo að skotnýtingin hafi ekki verið merkileg. Nú virðist heilsufarið vera farið að skána með hækkandi sól og Íslandsmeistararnir eru enn liðið sem þarf að vinna.

 

Valsmenn eru auðvitað á allt öðrum stað og fá hvatningu á annan hátt. Í fyrsta lagi vilja þeir næla sér í stig til að forðast fallbaráttuna alveg, hins vegar eiga þeir enn von um að komast í úrslitakeppnina. Að tapa gegn KR með 12 stigum á útivelli er ekkert til að hafa áhyggjur af. Þeir hafa sýnt það í vetur og gerðu það enn og aftur í þessum leik að þeir brotna ekki svo auðveldlega og gefast aldrei upp.

 

Athygliverðir punktar:

  • Valsmenn buðu upp á upphitunaræfingar sem voru aðeins fyrir utan þetta ofurhefðbundna, svo sem eins og tveir á einn hring. Gaman af því.
  • Nýja spádómskúlan er sæmilega sátt með niðurstöðuna – en bara sæmilega sátt eins og kannski bæði liðin eftir leikinn í kvöld.
  • Stórskyttan Brilli setti einn þrist í blálokin sem var hans eini í 10 skotum í kvöld! Honum var fagnað eins og 16 ára pjakki sem var að setja sinn fyrsta þrist fyrir meistaraflokkinn – og af kómískum viðbrögðum Brilla að dæma var ekki annað að sjá en það hafi einmitt verið málið!

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson