Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Hér fyrir neðan er janúar útgáfan fyrir Dominos deild kvenna. Það sem horft er til í þessari annarri útgáfu er gengi liðanna í upphafi móts, sem og hversu líklegt er að þau haldi því út tímabilið.

 

Örvarnar merkja þá breytingu sem orðið hefur á liðinu frá útgáfu síðustu kraftröðunnar.

 

 

1.Valur

 

Varla annað hægt en að hafa Val í efsta sæti þessa lista. Miðað við spilamennsku liðsins fyrir áramót eru þær lang líklegastar til þess að taka titilinn þetta árið. Sem stendur búnar að vinna 5 leiki í röð í annars erfiðri deild. Fá stórt próf strax í annarri umferð eftir áramót þegar þær mæta Íslands og bikarmeisturum Keflavíkur þann 17. næstkomandi. Liðin jöfn í sigrum það sem af er vetri, 1-1.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

2. Keflavík

 

Íslandsmeistararnir eru að nálgast sitt fyrra form og hafa bætt við sig. Liðið verður auðvitað án Emelíu Óskar út tímabilið en Embla hefur endurnýjað kynni sín af Keflavík og er mætt aftur. Það verður erfiðara að taka titilinn í ár en ef liðið finnur mojo-ið er það ansi óárennilegt. Liðið er eitt það besta í deildinni og gerir klárlega tilkall til titilsins en hefur ekki fundið stöðugleikann og á nóg inni.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

3. Stjarnan

 

Stjarnan hefur staðið sig vel það sem af er vetri. Enn og aftur, erfið deild, en þær hafa unnið 5 af síðustu 10 leikjum sínum. Við gerum ráð fyrir því að Stjarnan verði í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni fram á síðsta leik.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

4. Breiðablik

 

Nýliðarnir hafa komið öllum á óvart og spilað á köflum virkilega vel. Liðinu var spáð síðasta sæti deildarinnar en hefur nú unnið átta leiki og verið sérlega sterkar heimafyrir. Ivory Crawford er að taka framförum í liðinu og íslenskir leikmenn eru að springa út. Það yrði magnaður árangur fyrir liðið að komast í úrslitakeppnina og miðað við þessa kraftröðun er miði möguleiki.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

5. Haukar

 

Haukar falla aðeins niður listann í þessari útgáfu listans. Það er aðallega vegna þess að stjörnuleikmaður þeirra Helena Sverrisdóttir verður ekkert með þeim í janúar. Gerum ráð fyrir að þær (líkt og hvert annað lið sem væri án Helenu) verði í eilitlu basli þennan mánuðinn.

 

Breyting: Niður um fjögur sæti

 

 

6. Skallagrímur

 

Meiðsli fóru illa með Borgnesinga sem hafa engan vegin breiddina í að missa lykilmenn út. Liðið tapaði fimm síðustu deildarleikjunum á árinu 2017. Mikilvæg bikarvika er framundan hjá Skallagrím en velgengni þar gæti gert mikið fyrir stemmninguna. Liðið þarf að finna gleðina, trúnna og liðsheildina. Hæfileikarnir eru til staðar en eitthvað vantar uppá til að liðið geti komist í úrslitakeppni.

 

Breyting: Engin

 

 

7. Snæfell

 

Að Snæfell sé aftur næst neðst í þessari kraftröðun okkar segir meira um hversu jöfn deildin er þetta árið heldur en raunveruleg gæði liðs Snæfells. Eru sem stendur í sama sæti deildarinnar. Verður erfitt fyrir þessa fyrrum meistara til þriggja ára að gera atlögu að úrslitakeppninni þetta tímabilið, en það gæti þó gerst.

 

Breyting: Engin

 

 

8. Njarðvík

Það eru til tvö gjörsamlega ólík Njarðvíkurlið. Annars vegar Dominos deildar Njarðvík sem hefur ekki unnið leik, hinsvegar bikar Njarðvík sem er komið í undanúrslit keppninnar. Það styttist í fyrsta sigurleikinn hjá liðinu en líklega er það of seint. Fallið blasir við Njarðvík þetta tímabilið.

 

Breyting: Engin