Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Hér fyrir neðan er janúar útgáfan fyrir Dominos deild karla. Það sem horft er til í þessari annarri útgáfu er gengi liðanna í upphafi móts, sem og hversu líklegt er að þau haldi því út tímabilið.

 

Örvarnar merkja þá breytingu sem orðið hefur á liðinu frá útgáfu síðustu kraftröðunnar.

 

 

1. KR

 

Vel væri hægt að færa rök fyrir því að fyrri hluti tímabilsins hafi verið erfiður fyrir KR. Sé mið tekið af þeim hóp sem þeir fóru af stað með í Íslandsmótið og því að hin "toppliðin" hafa öll verið að misstíga sig, hefðum við alltaf gert ráð fyrir þeim einum á toppi töflunnar yfir jól og áramót. Þar eru þeir hinsvegar ekki einir. Vegna innbyrðisviðureigna eru það Haukar sem eru efstir. Afhverju erum við með KR efsta? Vegna þess að í dag fá þeir til baka besta íslenska körfuknattleiksmann sögunnar og orðið á götunni er að hann sé í góðu standi.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

2. Tindastóll

 

Skagfirðingar hafa ekki náð að sannfæra okkur um að það sé liðið sem geti tekið Íslandsmeistaratitilinn úr greipum KR. Liðið er mjög vel mannað og með skuggalega breidd en ósannfærandi frammistöður gera það að verkum að liðið fellur um eitt sæti.

 

Breyting: Niður um eitt sæti

 

 

3. Haukar

 

Haukar eru sem stendur efsta lið deildarinnar. Jafnir KR, Tindastól og ÍR að stigum, en með innbyrðisvinninga. Stór spurning hvort þeir væru hærra á þessum lista. Verða bara að fá að afsanna þessa röðun okkar. Frábært lið, sem gekk algjörlega í endurnýjun lífdaga við heimkomu hins stórgóða Kára Jónssonar. 

 

Breyting: Upp um þrjú sæti

 

 

4. Keflavík

 

Eftir góðan sigur á Njarðvík í El Clasico tapaði Keflavík þremur leikjum í röð í deild og bikar til að ljúka árinu 2017. Það sem dregur liðið upp kraftröðunina í þetta skipti er innkoma landsliðsleikstjórnandans Harðar Axel. Þar kemur ansi hreint þekkt stærð í liðið sem er klárlega einn besti leikmaður deildarinnar. Þá hefur liðið skipt um erlendan leikmann en Orlando Magic Stanley gerði lítið fyrir liðið í því standi sem hann var í.  

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

5. Grindavík

 

Grindavík hefur ekki enn sýnt okkur aftur hvað þeir voru að gera í úrslitakeppninni í fyrra, þrátt fyrir að vera mögulega með betri hóp þetta tímabilið. Af og til verið í tómu basli undanfarið. Hafa þó sýnt það inn á milli hvers megnugir þeir eru. Við höldum að þetta eigi allt eftir að smella saman hjá Grindavík, en vegna mikillar samkeppni í deildinni þetta árið, sjáum við okkur ekki fært um að gefa þeim hærra sæti (strax) í kraftröðuninni.

 

Breyting: Niður um tvö sæti

 

 

6. ÍR

 

Liðið er með jafn mörg stig og toppliðin en hrapar niður kraftröðunina. Ástæðan er sú að liðin fyrir neðan hafa öll styrk sig um hátíðarnar. Staðan segir því kannski meira um önnur lið en ÍR. Breiðhyltingar báru fram ljúfengan sokk í aðalrétt fyrir sérfræðinga fyrir jól og geta klárlega haldið því áfram á nýju ári.

 

Breyting: Niður um tvö sæti

 

 

7. Njarðvík

 

Njarðvík hefur unnið 7 af síðustu 10 leikjum sínum. Sem er nokkuð gott. Eru með einn besta erlenda leikmann deildarinnar í Terrell Vinson og með frekar góðan hóp íslenskra leikmanna. Eins og svo mörg lið í þessari deild, þá geta þeir á góðum degi unnið hvaða lið sem er. Flest liðin fyrir ofan þá í þessari kraftröðun teljum við þó annaðhvort vera betri, eða eiga meira inni. Njarðvík missir ekki af úrslitakeppninni aftur, en þeir eru heldur ekki að fara að valda neinum usla þegar í hana er komið, m.v. stöðuna í dag.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

8. Stjarnan

 

Hlynur Bæringsson leiðir liðið í öllum helstu tölfræði þáttum en það situr í áttunda sæti deildarinnar og það lítur út fyrir að vera nokkuð eðlileg staða. Garðbæingar hafa verið annað hvort frábærir eða mjög slakir. Klárlega lið sem getur unnið öll lið deildarinnar á góðum degi en góðu dagarnir hafa ekki verið nægilega margir.

 

Breyting: Niður um eitt sæti

 

 

9. Þór Þ

 

Eftir hreint hrottafengna byrjun á tímabili sínu hafa Þórsarar rétt eilítið úr kútnum. Litu á tímabili út fyrir að ætla sér niður um deild þetta tímabilið. Með nýjum erlendum leikmanni og frekara heilbrigði leikmanna liðsins hafa þeir verið að ná vopnum sínum aftur. Búumst við því að þeir gera betur eftir áramót heldur en þeir gerðu fyrir. Sjáum þá þó ekki blanda sér í baráttuna um áttunda og síðasta sæti úrslitakeppninnar.

 

Breyting: Engin

 

 

10. Valur

 

Það eru allir leikir jafnir hjá Val. Liðið er inní öllum leikjum en er ekki að takast að landa sigrum í nægilega mörgum leikjum. Fóru inní jólafrí með fjóra sigurleiki en hefðu í raun alveg getað bætt þremur við í viðbót ef allt hefði gengið upp. Jafnvægið í liðinu virðist ljómandi fínt og mikil stemmning. Vantar enn uppá næg gæði til að klífa hærra í töflunni.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

 

 

11. Þór Ak

 

Þórsrar frá Akureyri eru nú búnir að tapa 7 leikjum í röð. Voru án erlends leikmanns í síðustu leikjunum fyrir jólafrí. Því máttu þeir svo sannarlega ekki við. Við sjáum ekki hvernig Þór Akureyri ætlar sér að komast upp úr því fallsæti sem þeir eru í þessa stundina. Teljum bæði Val og Þór Þorlákshöfn með betri leikmannahópa heldur en þeir hafa. Bæta reyndar við sig leikmönnum rétt fyrir, eða yfir jólin í Nino og Hilmari. Það er samt ekki nóg, ekki nálægt því.

 

Breyting: Niður um eitt sæti

 

 

12. Höttur

 

Það þarf nánast kraftaverk á Egilsstöðum til að liðið haldi sér uppi þetta tímabilið. Liðið þarf að vinna að minnsta kosti helming þeirra leikja sem eftir er til að eiga möguleika á því að komast upp fyrir liðin fyrir ofan fallsæti. Liðið hefur ekki náð í sigur í deild á tímabilinu og stemmningin sem fylgir jafnan nýliðum hefur verið víðsfjarri. Hattar liðið hefur engu að tapa í seinni helming mótsins og munu vafalaust ná í langþráðan sigurleik áður en langt um líður.

 

Breyting: Engin