Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Nú skal 1. deild karla skoðuð. Það sem horft er til í þessari þriðju útgáfu eru sigrar í deildinni (og gegn hvaða liðum), tölfræði liðanna, leikmannaskipti undanfarið og almennt hvernig liðið lítur út á vellinum. Tekið skal fram að seinasta röðun var næstum því nákvæmlega eins og staðan um jólin (þið megið kalla okkur véfréttina héðan af) þannig að núna ætlum við aðeins að taka nokkur gisk svo menn geti kvartað yfir einhverju á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.

 

Örvarnar á þessum lista merkja færslu liða á milli mánaða.

 

#1: Breiðablik

 

Blikar hafa staðið sig vel og eru jafnir að stigum með Skallagrími í deildarkeppninni. Þeir hafa unnið þá í Smáranum og heimavöllur Breiðabliks er ennþá vígi (ósigraðir heima). Það kemur sér vel að 4 af 5 leikjum þeirra í janúar er í Smáranum en það sem ýtti þeim líka fram úr Borgnesingum voru leikmennirnir sem að þeir hafa fengið til sín; Erlendur Ágúst Stefánsson skrifaði nýlega undir hjá Breiðablik og Orri Hilmarsson er kominn á venslasamningi frá KR. Hver veit nema Breiðablik fari beint upp í úrvalsdeildina?

 

Breyting: Upp um 1 sæti

Næstu 5 leikir:
15-01-2018    gegn ÍA
18-01-2018    @ Skallagrímur

26-01-2018    gegn Snæfell

29-01-2018    gegn Gnúpverjar

01-02-2018    gegn Vestri

 

 

#2: Vestri

 

Ísfirðingar hafa bætt við sig nokkrum leikmönnum undanfarna mánuði og hafa líka unnið 3 útileiki í röð (gegn FSu, Gnúpverjum og Fjölni). Hinrik Guðbjartsson og Ágúst Angantýsson hafa verið flott viðbót í hópinn hjá Vestra og þetta gæti verið liðið til að passa sig á úrslitakeppninni. Nýja parketið á Ísafirði hefur vonandi jákvæð áhrif á heimavígið, en þeir eru ósigraðir hingað til á heimavelli sínum í Torfnesi. Þó að þeir hafi ekki getað æft á sínum eigin heimavelli í jólafríinu þá ná þeir að nýta 4 heimaleiki í seinni hluta mánaðarins til að komast fram úr Skallagrímsmönnum.

 

Breyting: Upp um eitt sæti

Næstu 5 leikir:
05-01-2018    @ Hamar

20-01-2018    gegn ÍA

21-01-2018    gegn ÍA

26-01-2018    gegn Skallagrímur

29-01-2018    gegn Snæfell

 

 

#3: Skallagrímur

Skallagrímsmenn eru efstir í deildinni með leik til góða. Þeir eiga hins vegar eftir að spila 3-4 leiki í janúar sem verða ekki auðveldir (Snæfell úti, Breiðablik heima, Vestri úti og FSu með nýjan erlenda leikmann). Eyjólfur Ásberg Halldórsson hefur dregið vagninn í flestum tölfræðiþáttum liðsins og hefur m.a.s. náð þrefaldri tvennu í heimaleik gegn toppliði Vestra. Þeir hafa hins vegar ekki getað unnið hitt toppliðið, Breiðablik, og þeir töpuðu sínum fyrsta heimaleik gegn Hamri. Erfitt að lesa í þetta en þeir falla í þriðja sætið þangað til við sjáum hvað kemur úr janúarmánuði.

 

Breyting: Niður um tvö sæti

Næstu 5 leikir:
04-01-2018    gegn Gnúpverjar
15-01-2018    @ Snæfell
18-01-2018    gegn Breiðablik
26-01-2018    @ Vestri
29-01-2018    gegn FSu

 

#4: Hamar

 

Annað hástökkvara liðanna í þessari kraftröðun eru Hvergerðingar, en þeir kláruðu fyrri part tímabilsins næstum því með sjö leikja sigurgöngu, en Blikar eyðilögðu fyrir þeim í lokaleiknum með 9 stiga sigri. Hamar eru sérkennilegir að því leyti að þeir eru yfir Snæfell og Skallagrím í +/-, en þeir hafa unnið bæði liðin með meiri mun en þeir hafa tapað fyrir þeim. Nú hefur Jón Arnór Sverrisson líka spilað 5 leiki með þeim á venslasamningi frá Keflavík. Skemmtilegt að sonur þjálfara Hamars spili fyrir Keflavík og að sonur þjálfara Keflavíkur spili fyrir Hamar. Hamarsmenn gætu valdið usla í úrslitakeppninni líkt og í fyrra. Sjáum hvað setur.

 

Breyting: Upp um tvö sæti

Næstu 5 leikir:
05-01-2018    gegn Vestri

15-01-2018    @ FSu

19-01-2018    gegn Fjölnir

25-01-2018    @ Gnúpverjar

02-02-2018    @ ÍA

 

 

#5: Snæfell

 

Snæfell hefur varið heimavöllinn sinn vel og uppskorið eftir því. Við tökum þó eftir því að þeir virðast ekki fíla að spila gegn Suðurlandsliðunum, en þeir hafa keppt 4 leiki sem enduðu í 7 stigum eða minna við bæði FSu (unnið samtals með 11 stigum í tveimur leikjum) og Hamar. Útileikurinn gegn Hamri tapaðist og liðin eru jöfn að stigum í deildinni, en það virðist vera uppsveifla hjá Hamri á meðan að Snæfell er í vægri dýfu. Seinastir inn í úrslitakeppnina.

 

Breyting: Niður um eitt sæti

Næstu 5 leikir:
07-01-2018    @ ÍA

15-01-2018    gegn Skallagrímur

21-01-2018    gegn Gnúpverjar

26-01-2018    @ Breiðablik

29-01-2018    @ Vestri

 

 

#6: FSu

FSu voru vonbrigði fyrir jól og áttu í ýmsum erfiðleikum, en þeir skiptu til að mynda um þjálfara fljótlega eftir upphaf tímabilsins. Nú hafa þeir líka kvatt Charles Jett Speelman, erlendan leikmann liðsins, og samið við nýjan framherja, Antowine Lamb. Í æfingaleik gegn ÍR leit hann vel út og það gæti verið að nú nái FSu loksins að standast þær væntingar sem við höfðum til þeirra. Þeir hafa marga góða leikmenn og nú hafa þeir líka frákastara og go-to leikmann í teignum. Of seint kannski fyrir úrslitakeppnina, en þeir geta þó klárað tímabilið með sæmd.

 

Breyting: Upp um tvö sæti

Næstu 5 leikir:
05-01-2018    @ Fjölnir
15-01-2018    gegn Hamar
25-01-2018    gegn ÍA
29-01-2018    @ Skallagrímur
04-02-2018    @ Snæfell

 

#7: Fjölnir

Fjölnismenn virðast ekki geta annað en tapað naumum leikjum og ungur mannskapur þeirra munu að öllum líkindum halda áfram að vinna leiki “næstum því”. Ekki mikið sem við getum sagt um þetta lið, Sigvaldi Eggertsson og Samuel Prescott Jr. eru flottir en hinir í liðinu verða að stíga upp.

 

Breyting: Niður um tvö sæti

Næstu 5 leikir:
05-01-2018    gegn FSu
14-01-2018    @ Gnúpverjar
19-01-2018    @ Hamar
29-01-2018    gegn ÍA
01-02-2018    @ Skallagrímur

 

#8: Gnúpverjar

Gnúpverjar eru að koma til og fóru inn í jólafríið með sigur gegn FSu á heimavelli þar sem þeir spiluðu vel saman. Tilkoma Atla Arnar Gunnarssonar virðist hafa verið það sem liðið þurfti. Nú eru hins vegar hin lið 1. deildarinnar líka búin að styrkja sig og þó allir kæmu aftur úr meiðslum og utanlandsferðum hjá Gnúpverjum þá falla þeir samt í 8. sæti röðunarinnar.

Breyting: Niður um eitt sæti

Næstu 5 leikir:
04-01-2018    @ Skallagrímur

14-01-2018    gegn Fjölnir

21-01-2018    @ Snæfell

25-01-2018    gegn Hamar

29-01-2018    @ Breiðablik

 

#9: ÍA

Nýr erlendur leikmaður kominn (Marcus Levi Dewberry) eftir að Shouse meiddist, en það á ekki eftir að skipta neinu máli. Botnlið er botnlið. Kannski þeir steli sigri gegn Fjölni eða Gnúpverjum seinna á tímabilinu. Það eru samt góðar líkur á því að þeir fari gegnum deildarkeppnina án þess að vinna leik. Ekki gaman.

 

Breyting: Engin

Næstu 5 leikir:
07-01-2018    gegn Snæfell
15-01-2018    @ Breiðablik
20-01-2018    @ Vestri
21-01-2018    @ Vestri
25-01-2018    @ FSu