Jakob Örn Sigurðarson heldur í stórleik í kvöld í sænsku úrvalsdeildinni þegar lið hans Boras Basket tekur á móti Södertalje. Boras er í 4. sæti deildarinnar með 18 stig en Södertalje í 3. sæti með 20 stig svo það eru tvö dýrmæt stig á ferðinni í kvöld.

„Þetta er búið að vera frekar jafnt í vetur, samt finnst mér Lulea og Norrköping vera skrefi framar en önnur lið í dag,“ sagði Jakob Örn í samtali við Karfan.is. Andstæðingar kvöldsins í Södertalje hafa ekki verið með eins sterkt lið í ár og undanfarin ár að mati Jakobs.

„Þeir hafa átt í smá meiðslaveseni en Lulea og Norrköping eru svo gott sem búin að tryggja sér efstu tvö sætin en þau gefa sæti beint í undanúrslitum,“ sagði Jakob en liðin í sætum 3-6 leika svo upp á hin sætin.

Aðspurður um möguleika Boras á að komast ofar í töfluna sagði Jakob: „Það er vel hægt að ná öðru sætinu en eins og Norrköping er að spila þá þurfa þeir að misstíga sig hrikalega, við erum þremur leikjum á eftir þeim og 11 leikir eftir í deildinni.“

„Liðið sem vinnur Boras-Södertalje í kvöld verður í þriðja sæti eftir kvöldið og þetta eru alltaf stórir leikir að mæta Södertalje,“ sagði Jakob sem kvaðst góður á skrokkinn svona miðað við aldur. „Ég var frekar lengi að ná mér og komast í fínt form eftir aðgerð í ágúst en í dag líður mér vel.“