Nýkríndi bikarmeistarinn Embla Kristínardóttir leikmaður Keflavíkur í Dominos deild kvenna kom fram í viðtali við fréttastofu RÚV í dag þar sem hún segir frá nauðgun sem hún varð fyrir af hendi annars íþróttamanns. 

 

Embla segir frá því að þegar hún var þrettán ára hafi henni verið nauðgað af fullorðnum frjálsíþróttamanni. Gerandinn hafi verið landsliðsmaður í sinni íþrótt og segir Embla að íþróttafélag mannsins hafi tekið ákveðna afstöðu með gerandanum með þögninni. 

 

Mál Emblu fór fyrir dómstóla og var gerandinn sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn barni fyrir um fimm árum. „Hann var fundinn sekur, það voru nóg sönnunargögn í málinu, en samt ekkert í rauninni þannig séð gert í því. Hann hélt bara áfram sínu lífi og ég átti bara að komast yfir þetta.“ segir Embla í viðtalinu við RÚV. 

 

Embla hefur leikið með Keflavík og Grindavík í efstu deild auk þess sem hún á að baki 14 A-landsliðs leiki. Henni finnst íþróttafélögin ekki hafa tekið skýra stefnu í málum sem þessu og segist ekki geta hugsað sér að spila með félögum sem taki afstöðu með dæmdum kynferðistbrotamönnum. 

 

Viðtalið við Emblu má finna í heild sinni inná vefsíðu RÚV. 

 

Mál Emblu mun ekki vera meðal þeirra sem 62. frásagna sem fylgdu með #MeeToo yfirlýsingu sem 462 íþróttakonur skrifuðu undir og birtu á dögunum. Nokkur fjöldi af körfuknattleikskonum er á listanum og því ljóst að mörgum steinum á eftir að velta innan hreyfingarinnar. 

 

ÍSÍ gaf frá sér yfirlýsingu vegna yfirlýsingarinnar sem Körfuknattleikssambandið tók heilshugar undir um helgina.